Hér á landi eru litlar hömlur á því hvernig megi fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum og venjulegir einstaklingar hafa sama aðgang að þessum möguleika og stórir sjóðir. Þetta er mikið tækifæri og ætti að nýta betur. Þetta sagði John Sechrest, stjórnandi Seattle Angel Conference, í fyrirlestri á ráðstefnunni Startup Iceland í Hörpunni í dag.
Hann stýrir stofnun sem safnar saman 20 til 40 fjárfestum í hvert skipti og kynnir fyrir þeim 40 til 60 frumkvöðlaverkefni sem eru í gangi og eru að leita að fjárfestingu. Í lokin eru valin um 6 verkefni og 5.000 Bandaríkjadollarar eru settir í verkefnið frá hverjum fjárfesti. Með þessu skapast grundvöllur fyrir englafjárfesta til að dreifa áhættunni og taka þátt í fjárfestingum með litlum fjármunum.
Hann tók þó sérstaklega fram að englafjárfestingar eru áfram mjög áhættusamar fjárfestingar, en í Bandaríkjunum tapa fjárfestar peningum á um 50% slíkra verkefna. Aftur á móti getur hagnaðurinn orðinn töluvert mikill hjá þeim fyrirtækjum sem gengur vel, en það getur verið í kringum 20% af verkefnunum.
Hann nefndi að í Bandaríkjunum þyrftu einstaklingar að geta sýnt fram á ákveðna eignastöðu til að geta fjárfest í óskráðum fyrirtækjum, en hér væru ekki slíkar hömlur og það væri tækifæri til þess að koma fótum betur undir frumkvöðlastarfsemi og bjóða fjárfestum upp á áhugaverðar fjárfestingar.