Algjört hrun varð á japönskum hlutabréfamarkaði í dag þegar Nikkei hlutabréfavísitalan lækkaði um 6,35%. Lækkunin er rakin til mikillar sölu á hlutabréfum vegna styrkingu jensins og ákvörðunar Seðlabanka Japans um að hætta stuðningsaðgerðum bankans.
Sagt er að 10% lækkun á hlutabréfavísitölum sé leiðrétting á verði bréfa, en þegar markaður er dottinn niður um meira en 20% frá toppi tala menn um það sem á ensku er kallað „bear market“, eða „beygðan markað“. Það á við um þann japanska í dag þar sem lækkunin í dag, 843,94 stig, þýðir að lokagildi Nikkei í dag er 12.445,38 sig en í síðasta mánuði fór vísitalan hæst í rúmlega 15.600 stig.
Nikkei hlutabréfavísitalan hefur ekki verið lægri síðan 3. apríl og er þetta í þriðja skiptið á einungis mánuði sem vísitalan lækkar um meira en 5% á einum degi. Hefur vísitalan lækkað um 20% frá sínu hæsta gildi þann 22. maí sl. en 20% lækkun er það viðmið sem notað er um að markaður falli undir beygðan markað.
Þetta þýðir að markaðsvirði félaga sem eru innan vísitölunnar hefur lækkað um 453 milljarða Bandaríkjadala.
Það sem af er degi hafa hlutabréfavísitölur í Asíu og Eyjaálfu lækkað. Meðal annars Hang Seng vísitalan í Hong Kong sem hefur lækkað um 2,68%, Kospi í Seúl um 1,03% og í Sydney nemur lækkunin 0,65%.