„Græna fiskiskipið“ gæti sparað milljarða

„Græna fiskiskipið“ gæti sparað milljarða á ári í olíukostnaði, en …
„Græna fiskiskipið“ gæti sparað milljarða á ári í olíukostnaði, en Sjávarklasinn segir að útgerðir eigi að sameinast um að koma upp tilraunaskipi sem reyni nýja tækni.

Spara mætti allavega 4 milljarða á ári og skapa hundruð starfa tengt verkefni um „græna fiskiskipið“. Þetta kemur fram í greiningu Sjávarklasans, en þar er farið yfir möguleika að þróa fiskiskip sem myndi nota 20% minni olíu en nú er gert með samstarfi útgerða við að starfrækja tilraunaskip.

Í nýútkominni Greiningu Sjávarklasans segir frá tækifærum í samstarfi tæknifyrirtækja í hönnun og smíði skipa og skipabúnaðar. Á undanförnum árum hafa íslensk tæknifyrirtæki í sjávarútvegi þróað ýmsan búnað fyrir skip sem er framúrskarandi og umhverfisvænn. Meðal annars hafa skipaverkfræði- og ráðgjafarfyrirtæki eins og Skipasýn, NAVIS, Álasund og Skipatækni þróað ýmsar tæknilausnir sem auka rekstrarhagkvæmni og spara orku um borð í skipum.

Mikill olíusparnaður

Ef litið er til olíunotkunar innlendra fiskiskipa þá nemur hún um 20 milljörðum króna. Segir Sjávarklasinn að miðað við varlega áætlun, sem byggir á upplýsingum frá tæknifyrirtækjunum sjálfum og þeim tilraunum sem gerðar hafa verið með búnað þeirra, þá má áætla að búnaður og hönnun sem nefnd er hér að framan geti sparað að minnsta kosti 20% af olíukostnaði eða sem nemur sparnaði upp á 4 milljarða króna á ári.

Segir í greiningunni að tækifærið framundan felist í því að sameina krafta og fjárfesta í því sem kallist „Græna fiskiskipið.“ Þar verði tilraunaskip íslenska flotans þar sem allur nýr búnaður er reyndur.

Hundruð starfa

Að mati Sjávarklasans er hyggilegast að útgerðir komi sér saman um að ein útgerð taki að sér að gera þær breytingar á einu skipi og starfræki „græna fiskiskipið“. Þá er sagt að verkefni sem þetta geti orðið mjög umfangsmikið ef rétt er að staðið og skapað hundruð starfa, bæði í tæknigreinum, málmsmíði, hugbúnaðargerð og fleiri greinum. Þetta bjóði einnig upp á þann möguleika að vekja athygli á íslenskri hönnun og hugviti með alþjóðlega markaðssetningu í huga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK