Nægt framboð er af starfsfólki um þessar mundir til að sinna eftirspurn fyrirtækja. Yfirgnæfandi meirihluti stjórnenda í atvinnulífinu telur að ekki sé skortur á starfsfólki. Einungis 13% stjórnenda finna fyrir skorti á starfsfólki en 87% ekki.
Þetta er ein af niðurstöðum könnunar Capacent á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins, sem gerð var í síðasta mánuði fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann. Þetta er svipuð niðurstaða og í sambærilegri könnun fyrir ári síðan, þegar 14% stjórnenda fundu fyrir skorti á starfsfólki.
Staðan er þó mjög mismunandi eftir atvinnugreinum. Skortur á starfsfólki virðist mjög mikill í byggingariðnaði þar sem tæplega 60% stjórnenda finna fyrir skorti á starfsfólki. Skortur er einnig töluverður í ferðaþjónustu, flutningum og ýmissi þjónustu þar sem um 20% stjórnenda finna fyrir skorti. Enginn skortur er hins vegar á starfsfólki í verslun og fjármálaþjónustu.
Skorturinn er minnstur í stærstu fyrirtækjunum en tilfinnanlegur í minni og meðalstórum fyrirtækjum, nánar tiltekið þeirra sem hafa færri en 60 starfsmenn og ársveltu undir einum milljarði króna.
Skortur á starfsfólki er heldur meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni finna 16% stjórnenda fyrir skorti en 12% á höfuðborgarsvæðinu.
Um 20% stjórnenda sjá fram á fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum, 10% vænta fækkunar og 70% að starfsmannafjöldi verði óbreyttur. Mestrar fjölgunar er vænst í byggingariðnaði og ferða- og flutningaþjónustu.
Tæplega 30 þúsund manns starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Af svörum stjórnenda má áætla að starfsmönnum þeirra fjölgi um rúmlega 100 eða 0,4% á næstu sex mánuðum. Fyrirtækin í könnuninni starfa í atvinnugreinum með 103.000 starfandi sem er 60% af heildarfjölda starfa í landinu. Séu niðurstöður könnunarinnar yfirfærðar á atvinnulífið í heild gefa þær vísbendingu um að störfum á almennum vinnumarkaði fjölgi um 375 á næstu 6 mánuðum.
Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 10.-30. maí 2013 og voru spurningar 7. Í úrtaki voru 437 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 273 þannig að svarhlutfall var 62,5%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.