Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn segir nauðsynlegt að auka aðhald í ríkisfjármálum og að lítið pláss sé fyrir frekari lækkun íbúðalána. Þá er hagvaxtarspá sjóðsins til næstu ára nokkuð neikvæðari en spá Seðlabankans. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sendinefnd sjóðsins, sem kynnt var á Kjarvalsstöðum í morgun.
Í yfirlýsingunni segir að áætlun um hallalausan ríkissjóð á næsta ári og afgang upp á 5% árið 2016 gefi góð fyrirheit og sé öflugur grunnur undir lækkun opinberra skulda. Aftur á móti líti út fyrir að niðurstaða þessa árs verði 1 prósenti undir áætlunum, eða 2,3% hallarekstur. Það þýði að koma þurfi til nýrra aðgerða til að minnka hallann á næstu 18 mánuðum.
Nefnir sjóðurinn meðal annars niðurskurð í heilbrigðis- og menntamálum og vitnar þar í erlenda skýrslu, sem væntanlega er skýrsla McKinsey, um að hægt sé að auka hagræðingu í þessum greinum án þess að það komi niður á gæðum þjónustunnar.
Miðað við verri niðurstöðu á þessu ári en gert hafði verið ráð fyrir segir sendinefndin að lítið pláss sé fyrir auknar lækkanir á húsnæðislánum. Þá telur nefndin að nauðsynlegt sé að setja saman óháða nefnd til að fara yfir málefni Íbúðalánasjóðs og finna lausn til frambúðar, en sjóðurinn hefur ítrekað þurft fjárfreka aðstoð frá ríkissjóði síðustu ár.
Segir í yfirlýsingunni að spáð sé um 2% hagvexti á ári næstu 5 árin, en það er nokkuð undir spá Seðlabankans, sem gerir ráð fyrir 1,8% hagvexti í ár, 3% á næsta ári og 3,5% árið 2015.
Sem fyrr ítrekar nefndin nauðsyn þess að lyfta fjármagnshöftunum. Setja þurfi upp skýra stefnu í þeim málum og leysa vandamál varðandi Landsbankaskuldabréfið og aflandskrónur með fjármálastöðugleika í huga.