Framkvæmdir við Hljómalindarreit í sumar

Götumynd Hverfisgötu við Hljómalindarreitinn, samkvæmt vinnuteikningum. Farið verður í framkvæmdir …
Götumynd Hverfisgötu við Hljómalindarreitinn, samkvæmt vinnuteikningum. Farið verður í framkvæmdir í sumar, en stefnt er að fara í miklar breytingar á reitnum.

Í sumar munu hefjast miklar framkvæmdir í miðbænum, en meðal annars verður farið í enduruppbyggingu á Hljómalindarreitnum svokallaða. Það er fjárfestirinn og byggingaverktakinn Pálmar Harðarson sem stendur fyrir þessari uppbyggingu, en Morgunblaðið sagði frá því í janúar að Landsbankinn hefði samið við hann um sölu á Hljómalindar-, Brynju- og Vatnsstígsreitunum.

Það er félagið Þingvangur sem er kaupandinn, en Pálmar er í forsvari fyrir það. Gengið var frá lokasamningum í gær, en þá eignaðist félagið allar eignir við reitinn, ef frá er talið Centerhotel Klöpp, sem áfram er í eigu hótelkeðjunnar. Breytingar munu eiga sér stað á Hverfisgötu, Sirkus-lóðinni og Smiðjustíg.

Hjartagarðurinn verður áfram opinn almenningi

Byrjað verður á Hljómalindarreitnum, en vinna við seinni reitina tvo er enn á frumstigi samkvæmt upplýsingum frá Þingvangi. Mikið hefur verið rætt um framtíð Hjartagarðsins, en samkvæmt áætlun verður hann áfram opinn almenningi, þó að breytingar verði gerðar þar á. Verður hann opinn í óbreyttri mynd fram eftir sumri, en eftir breytingarnar er gert ráð fyrir að þar verði skjólgott torg sem verður opið almenningi.

Hægt verður að ganga inn í garðinn frá Laugavegi, þar sem Hljómalindarhúsið er, en auk þess verður bætt við aðgengi frá Smiðjustíg, meðfram nýbyggingu sem þar mun rísa. Aftur á móti mun lokast fyrir aðgengi frá Hverfisgötunni.

Engin stórhýsi

 „Það er stefna Þingvangs að byggja upp reitina með anda miðbæjarins og fjölbreytileika í fyrirrúmi. Það er ekki vilji okkar að búa til stílbrot í miðbæinn,“ segir Friðjón Friðjónsson, talsmaður félagsins. Hann segir að áfram verði að finna margvíslega starfsemi á svæðinu, en áætlað er að þar verði íbúðir, hótel, verslanir, veitingasalir og skrifstofur.

Pálmar segir að ekki standi til að reisa stórhýsi, heldur verði framkvæmdirnar í samstarfi við borgina. „Við erum í nánu samstarfi við Reykjavíkurborg og báðir aðilar vilja tryggja að andi miðbæjarins haldi sér vel. Við erum ekki að fara að reisa stórhýsi heldur leggjum við mikla áherslu á að sjarmi Reykjavíkur haldi sér. Það mun styrkja miðbæinn að meira líf komi í hús sem núna eru lítið eða illa nýtt. Það er staðföst trú mín að framkvæmdirnar styrki miðbæinn og bæti,“ segir Pálmar.

Miklar breytingar á Hverfisgötunni

Gert er ráð fyrir götumynd Hverfisgötu muni breytast töluvert, en öll hús götunnar við reitinn munu taka einhverjum breytingum, ef Hverfisgata 26 er undanskilin, en þar er nú skemmtistaðurinn Celtic.

 „Varðandi breytingar á Hverfisgötu þá sést það best á myndinni sem er að vísu vinnuteikning hvaða hugmyndir við höfum um götumynd Hverfisgötu. Það verður auðvitað einhver breyting á götumynd, sérstaklega Hverfisgötu en breytingin verður til batnaðar og í anda miðbæjarins,“ segir Friðjón.

Húsið á Hverfisgötu 28, sem brann fyrir nokkrum árum, er friðað og því þarf að fara heldur óvenjulega leið þegar það er endurbætt. Verður það tekið af grunninum og sett til hliðar á lóðina á Hverfisgötu 30. Þá verður steyptur nýr grunnur og húsið svo sett upp á hann að nýju. Þetta er nauðsynlegt þar sem húsið hefur brunnið tvisvar og algjör endurbygging er nauðsynleg.

Þá verður í framhaldinu farið í uppbyggingu á Hverfisgötu 32 og 34 og þau hús hækkuð um eina hæð, eins og sjá má á meðfylgjandi teikningu.

Stórbygging við Smiðjustíg

Önnur stór breyting verður á Smiðjustíg, en húsið sem nú hýsir skemmtistaðinn Faktorý verður rifið og nýtt hús byggt í staðin. Mun það ná út að Smiðjustígnum, en í dag er þar nokkuð stórt port fyrir framan skemmtistaðinn. Heildarstærð nýs húss verður um 2.700 fermetrar, en samanlögð stærð reitsins í dag er um 1.600 fermetrar.

Byggt kringum Sirkus-húsið

Þriðja stóra breytingin verður í kringum Sirkus-húsið, en gert er ráð fyrir að byggð verði nýbygging á reitnum sem verður í kringum Sirkus-húsið og að einhverju leyti yfir því. Í deiliskipulagi er þetta sagt um reitinn: „Lóðin breytist og er skipt upp aftur. Á lóðinni er elsta húsið á reitnum, ein hæð og ris byggt árið 1883. Húsið brann árið 1922, en eftir það var verslunin Vaðnes rekin í húsinu, fram á áttunda áratuginn. Síðan þá hefur það lengst af verið öldurhús, þekktast undir nafninu „Sirkus“. Gert er ráð fyrir því að nýtt hús verði byggt í anda eldra hússins, þar sem þar er varla nokkuð upprunalegt eftir. Fjögurra hæða nýbygging með kjallara er heimiluð á lóðinni sambyggð og yfir eldra húsi. Stórir gluggar skulu opnast á 1. hæð hússins í þrjár áttir, þ.e. að Klapparstíg, Laugavegi og gönguleið að torgi. Eldvarnarveggur er að Laugavegi 21.“

2.000 fermetrar bætast við

Í heild mun byggingarmagn á reitnum aukast um tæplega 2.000 fermetra og er stækkunin á Smiðjustíg þar langveigamest. Samkvæmt deiliskipulagi verður nú leyfilegt byggingarmagn á Hljómalindareitnum 17.322 fermetrar.

Stórtækur á byggingamarkaði

Pálmar hefur verið stórtækur á byggingamarkaðinum, en eins og Morgunblaðið hefur greint frá byggði hann Icelandair-hótelið á Akureyri og seldi það síðan. Þá hefur hann verið að byggja upp Lýsisreitinn í Reykjavík þar sem gert er ráð fyrir 100 íbúða fjölbýlishúsi.

Lítið hefur verið um stórar framkvæmdir upp á síðkastið, en Pálmar telur að þessi framkvæmd komi ekki á röngum tíma. „Við hjá Þingvangi höfum mikla trú á þessum verkefnum og teljum okkur geta farið í þau og hagnast lítillega. Það er mikil uppsöfnuð þörf eftir húsnæði og meiri bjartsýni í þjóðfélaginu, því teljum við að við séum að hefja framkvæmdir á réttum tíma,“ segir hann.

Vonandi bara upphafið

Pálmar er sjálfur íbúi í miðbænum og segir að vonandi verði fleiri götur gerðar upp á næstunni og að þetta verði aðeins fyrsta skrefið. „Það er tvímælalaust von okkar að fleiri fylgi í kjölfar okkar og Reykjavíkurborgar sem er að fara í tímabært  fegrunarátak á Hverfisgötu. Miðbærinn allur á að vera skemmtilegur og heillandi, ekki bara valdar götur,“ segir hann.

Deiliskipulag fyrir Hljómalindarreit

Hverfisgatan séð frá svipuðu sjónarhorni og vinnuteikningin. Sjá má að …
Hverfisgatan séð frá svipuðu sjónarhorni og vinnuteikningin. Sjá má að bætt verður við hæð á Hverfisgötu 28 og 32 og nýtt hús mun koma á Hverfisgötu 30. Rósa Braga
Séð yfir Hljómalindarreit frá Laugavegi til austurs.
Séð yfir Hljómalindarreit frá Laugavegi til austurs.
Hljómalindarreiturinn.
Hljómalindarreiturinn.
Hverfisgata 28 hefur brunnið tvisvar og því þarf að steypa …
Hverfisgata 28 hefur brunnið tvisvar og því þarf að steypa nýjan grunn. Húsið verður fært á næsta reit til hliðar meðan á þeim framkvæmdum stendur. Rósa Braga
Klapparstígur 28 og 30. Sirkus-húsið er hér í forgrunni og …
Klapparstígur 28 og 30. Sirkus-húsið er hér í forgrunni og gömlu CCP höfuðstöðvarnar lengra fjær. Gert er ráð fyrir að nýtt hús rísi þar á milli sem verður bygg í kringum Klapparstíg 28. Rósa Braga
Hjartagarðurinn mun taka talverðum breytingum, en hann mun áfram verða …
Hjartagarðurinn mun taka talverðum breytingum, en hann mun áfram verða opinn almenningi. Rósa Braga
Laugavegur 21, Hljómalindarhúsið, er friðað og engar breytingar eru áætlaðar …
Laugavegur 21, Hljómalindarhúsið, er friðað og engar breytingar eru áætlaðar á því. Rósa Braga
Klapparstígur 26, Centerhotel Klöpp, verður áfram í eigu núverandi eigenda …
Klapparstígur 26, Centerhotel Klöpp, verður áfram í eigu núverandi eigenda og mun hótelið áfram verða starfrækt í húsinu. Rósa Braga
Smiðjustígur 6, Húsnæðið sem nú hýsir skemmtistaðinn Faktorý verður rifið …
Smiðjustígur 6, Húsnæðið sem nú hýsir skemmtistaðinn Faktorý verður rifið og mun ný bygging ná fram að Smiðjustígnum. Rósa Braga
Núverandi deiliskipulag Hljómalindarreitsins.
Núverandi deiliskipulag Hljómalindarreitsins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK