„Áhættulíkön vanmeta áhættu þegar vel árar en ofmeta áhættu þegar kreppa skellur á.“ Þetta sagði Jón Daníelsson í erindi sínu á alþjóðlegri ráðstefnu um hagkerfi fyrir helgi. Þetta er í 18. skipti sem hin árlega WEHIA-ráðstefna er haldin en ráðstefnan sameinar hagfræðinga og vísindamenn á vettvangi efnahagsmála. Markmiðið er að bæta hefðbundin líkön hagfræðinnar sem margir telja ekki nógu góð til að hjálpa til í glímunni við fjármálakreppur. Ráðstefnan fer að þessu sinni fram í Háskóla Reykjavíkur. Í erindi sínu benti Jón á galla áhættulíkana og sagði þau ekki nógu áreiðanleg til að hjálpa stjórnvöldum við að takmarka kerfislega áhættu á fjármálamörkuðum.
Jón Daníelsson, sem er prófessor í hagfræði og fjármálum við London School of Economics (LSE), hlaut fimm milljóna punda styrk, jafnvirði ríflega milljarðs íslenskra króna, fyrr á árinu. Viðskiptablað Morgunblaðsins greindi frá því að hann hefði fengið þennan styrk til að koma á fót rannsóknarstofnun um kerfislæga áhættu á fjármálamörkuðum. Er talið að þetta sé hæsti styrkur sem íslenskur fræðimaður á sviði félagsvísinda hefur fengið.
Styrkurinn var veittur af Hagfræði- og félagsvísindaráði Bretlands og LSE en á meðal helstu samstarfsaðila stofnunarinnar eru Evrópski seðlabankinn, Englandsbanki, Seðlabanki Frakklands og Fjármálaeftirlit Bretlands.
Á ráðstefnunni gerði Jón grein fyrir hugtakinu „macro-prudential“, sem útleggst sem þjóðhagsvarúð á íslensku. Hugtakið segir að áhætta í hagkerfinu kunni að vera meiri en einföld summa einstakra áhættuþátta aðila á markaði. Huga þurfi að stöðugleika fjármálakerfisins í heild í stað þess að einblína á einstaka hluta þess, þannig að takmarka megi kerfislæga áhættu. Jón segir að um tiltölulega nýtt hugtak sé að ræða en á seinustu árum hafi ríkisstjórnir myndað sér það sem kallað er þjóðhagsvarúðarstefnu.
Markmiðið með þjóðhagsvarúð er, eins og áður kom fram, fyrst og fremst að takmarka kerfisáhættu. Ein leið til þess að gera það, sem er sú leið sem Jón einblínir aðallega á, er að nota aðferðir, sem spá fyrir um áhættu, til að bera kennsl á stigmagnandi áhættu og finna aðgerðir til úrbóta. Að sögn Jóns eru formlegar tölfræðilegar aðferðir og fyrirliggjandi upplýsingar helst notaðar til að segja fyrir um líkindi þess að eitthvað fari úrskeiðis. Þá vakni upp nokkrar spurningar, svo sem hvort módelið sem býr að baki sé áreiðanlegt, hvort allir hagvísarnir sýni rautt ljós á sama tíma og hvernig leggja eigi mat á aðferðirnar.
Jón bendir á að til eru tugir hagvísa sem hjálpa stjórnvöldum að framfylgja þjóðhagsvarúðarstefnu sinni. Einhver þeirra muni á hverjum gefnum tíma sýna hættumerki. Þess vegna sé brýnt að vanda vel valið. Jón vakti einnig upp spurningar um markmið stefnunnar sem er m.a. að jafna út hagsveiflur. Það gerir það að verkum, að sögn Jóns, að áhættusækni eykst sem kallar á meiri áhættutöku. Þessi aukna áhættutaka grafi undan þeim árangri sem náðst hafði í byrjun.
„Value at Risk“ (VaR), sem hefur verið þýtt sem „fé í húfí“, er mikið notað í fjármálaheiminum til að leggja mat á það hve mikla áhættu markaðsaðilar taka hverju sinni. Með fé í húfi er, í stuttu máli sagt, átt við hve mikið talið er að virði tiltekins eignasafns geti rýrnað á gefnu tímabili undir venjulegum kringumstæðum. Jón benti á að í raun væri hægt að láta VaR vera hvað sem er. Bætti hann því við að áhættulíkönin, sem byggjast mörg hver á VaR, sýni mun meiri áhættu þegar efnahagserfiðleikar steðja að. Þannig sé það hins vegar ekki í raunveruleikanum.
Nefndi Jón tvær gerðir af áhættu, raunverulega áhættu og þá áhættu sem áhættulíkönin sýna okkur. Þeim hætti til að hafa neikvæða fylgni. Samkvæmt líkönunum eykst áhætta þegar skellurinn í hagkerfinu kemur en raunin sé hins vegar önnur. Segir
Jón áhættuna fara vaxandi í uppsveiflunni. „Áhættulíkönin segja okkur að allt sé í jafnvægi rétt áður en blaðran springur. Á tímum kreppu minnkar aftur á móti áhættan sem og flöktið.“
Jón sagði áhættulíkönin gera það að verkum að bankar haldi nú að sér höndum við lánveitingar. „Basel III horfir til áhættunnar sem líkönin sýna. Þegar fjármálamarkaðurinn hrundi jókst sú áhætta.“ Áhættulíkön hafa sín áhrif á kröfur Basel III um eigið fé þannig að mikil áhætta, samkvæmt líkönunum, þýðir auknar kröfur til bankastofnana. „Þess vegna eru bankarnir ekki að lána út,“ segir Jón.
Jón segir áhættulíkönin, og hvernig þau spá fyrir um áhættu, ekki hjálpa stjórnvöldum við að mynda hagvarúðarstefnu. „Það er mjög erfitt að gera líkan af raunverulegri áhættu.“ Hann sagði líka mikilvægt að haldið væri í sama líkanið. „Ef þú velur verkfæri til að ná stefnu þinni fram verðurðu að velja eitt. Banki getur ekki sagst ætla að nota líkan A í dag en líkan B á morgun. Þú velur eitt og hvikar ekki frá því.“