OR breytir skuld GR í hlutafé

Hús Orkuveitu Reykjavíkur.
Hús Orkuveitu Reykjavíkur.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefur ákveðið, með fyrirvara um samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar, að breyta allt að fjórum milljörðum af átta milljarða láni til Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) í hlutafé. Það er gert gegn því að eftirstöðvar lánsins verði greiddar.

OR ákvað í október 2012 að selja 49% hlut í GR en OR á GR að fullu. Endurfjármögnun GR er hluti af undirbúningi sölu 49% hlutarins. OR lagði GR til eignir og hlutdeild í skuldum OR við stofnun GR árið 2007. Lánasamningurinn var í erlendri mynt og stökkbreyttist árið 2008. Heildarskuldir GR um síðustu áramót námu rúmum átta milljörðum króna sem gjaldfalla á þessu ári. Heildareignir GR, sem eru að mestu ljósleiðarakerfi, eru rúmlega 11 milljarða virði og tekjur GR í fyrra námu 1,4 milljörðum.

Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður OR, var spurður hvort breyting helmings láns OR í hlutafé væri viðurkenning á því að þetta væri tapað fé. „Nei, það er von til þess að hlutaféð seljist. Vissulega varð Gagnaveitan fyrir höggi, gengistapi og öðru. Þetta endurspeglar það. Nú er unnið að breytingu á fjármagnsskipan fyrirtækisins og að færa það úr fangi Orkuveitunnar til að gera það seljanlegra,“ segir Haraldur Flosi í samtali við Morgunblaðið í dag. Hann sagði ætlunina að Gagnaveitan fjármagnaði hinn helming lánsins, sem ekki er breytt í hlutafé, með lántöku á almennum markaði. Væntanlegir kaupendur Gagnaveitunnar taka því við skuldsettu fyrirtæki.

Haraldur sagði að auk skuldarinnar við OR skuldaði Gagnaveitan um 1,5 milljarða og er ætlunin að endurfjármagna þá skuld með langtímaláni.

„Gagnaveitan hefur verið í framkvæmdafasa og verið framkvæmdafjármögnun á þessu. Nú er kominn tími til að langtímafjármagna þetta,“ sagði Haraldur Flosi.

„Ég er mjög sáttur við að selja hluta af Gagnaveitunni,“ sagði Kjartan Magnússon, stjórnarmaður í OR. „Það er ljóst að skattgreiðendur í Reykjavík hafa þurft að borga vel á annan tug milljarða króna í þetta fjarskiptaævintýri Orkuveitunnar.“ Hann kvaðst telja að breyting á helmingi skulda GR við OR í hlutafé sýndi svart á hvítu að sennilega hefði þetta verið tapað fé fyrir Orkuveituna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK