„Ég tel að Pipar geri sig þarna seka um að blanda saman hlutum á þann hátt að það sé aðferðafræðilega ótækt. Það er ekki hægt að nota neyslukönnun Capacent með þessum hætti, þannig að hún gefi óyggjandi vísbendingar um það sem þeir segjast vera að draga ályktanir um,“ segir Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, spurður um niðurstöður nýrrar rannsóknar sem Pipar Media birtingahús vann úr neyslu- og lífsstílskönnun Capacent Gallup.
Greint var frá niðurstöðu rannsóknarinnar í gær en þar kom fram að áskrifendum SkjásEins hefði fjölgað um 1,8% frá því að sjónvarpsstöðin gerðist áskriftarstöð árið 2010 en á sama tíma hefði áskrifendum Stöðvar tvö fækkað um 8,2%.
„Neyslukönnunin er að spyrja einstakling, á meðan það hvort viðkomandi hefur aðgang að Stöð 2, eða öðrum áskriftarstöðvum, ræðst af fleiri þáttum eins og fjölskyldustærð – sjónvarpsáskrift er fjölskyldumál,“ segir Ari og bætir við að grundvallaratriðið sé það að neyslukönnunin bjóði ekki upp á notkun af þessu tagi. Þá bendir hann jafnframt á að á könnuninni séu skekkjumörk. Þannig sé 1,8% aukning á áskrifendum hjá SkjáEinum innan skekkjumarka og því engin vísbending um það hvort raunverulega sé um aukningu að ræða eða ekki. Einnig segir hann að í neyslukönnuninni sé spurt um sjónvarpsáskriftir á mismunandi árstímum. „Ég tel heilt yfir að menn séu að fara fram úr sér í ályktunum á þessum grundvelli,“ segir Ari.