Kolviður og Landsbankinn hf. hafa gert með sér nýjan samning til eins árs um kolefnisjöfnun. Markmið hans er að binda kolefni, CO2, sem til fellur vegna tiltekinnar starfsemi Landsbankans, í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt sem Kolviður hefur umsjón með.
Kostnaður við kolefnisbindingu árið 2013 er kr. 2.000 pr. tonn CO2. Áætluð losun Landsbankans er um 240 tonn sem samsvarar 480 þúsund krónum.
Landsbankinn heldur kolefnisbókhald yfir þá starfsemi sem kolefnisjöfnunin nær til og skráir notkun jarðeldsneytis og ferðir starfsmanna. Útreikningur á losun gróðurhúsalofttegunda byggir á aðferðum sem Kolviður hefur samþykkt.
Landsbankinn fær um leið heimild til þess að nota merki Kolviðar á þá bíla sem sannanlega eru kolefnisjafnaðir. Þetta á einnig við um kynningargögn, upplýsingar á heimasíðu og útsent efni.
Kolviður starfar undir eftirliti Ríkisendurskoðunar, Íslenskrar skógarúttektar og ytri endurskoðenda sem yfirfara og sannreyna að nauðsynleg plöntun og umhirða eigi sér stað og að fjármunir séu tryggðir til umhirðu þar til trjáræktin hefur skilað þeirri bindingu sem kolefnisjöfnunin miðar að. Miðað er við að það taki gróður 90 ár að binda 330 tonn CO2/ha. og til þess að tryggja það er þinglýst kvöð á því landi sem nýtt er undir Kolviðarskóg.