Í dag var síðustu seðlageymslu Seðlabanka Íslands utan Reykjavíkur lokað, en hún var á Akureyri. Frá árinu 2000 hafa miklar breytingar orðið á verkefnum og verklagi í fjárhirslum Seðlabankans, en hluti af þessum breytingum hefur verið endurskoðun á hlutverki bankans í seðladreifingu á Íslandi.
Ein aðalástæðan fyrir því að Seðlabankinn hefur lokað seðlageymslum sínum utan Reykjavíkur er sú að afmarka betur ábyrgð og hlutverk þeirra fjármálastofnana sem koma að hinum ýmsu þáttum í seðladreifingu á landinu, segir í fréttatilkynningu.
Seðlageymslur utan Reykjavíkur eiga sér nokkuð langa sögu. Árið 1950 voru þær fimm, en flestar urðu þær árið 1980 þegar þær voru 24. Árið 2003 ákvað Seðlabankinn síðan að stefna að því að loka öllum seðlageymslum sínum á landsbyggðinni. Eftir það hefur þeim verið lokað jafnt og þétt og þeirri síðustu var lokað í dag.