Ekki einstefna í Kauphöll

Fjárfestar sem keypt hafa í TM hafa notið góðrar ávöxtunar …
Fjárfestar sem keypt hafa í TM hafa notið góðrar ávöxtunar á skömmum tíma. Sömu sögu er að segja af þeim sem keyptu í VÍS. mbl.is/Eggert

Hlutabréfaverð í Kauphöll stefnir ekki allt í sömu átt á þriggja mánaða tímabili þrátt fyrir gjaldeyrishöft og skort á fjárfestingarkostum. Það er alls ekki sjálfgefið þegar mikill skortur er á fjárfestingarkostum. Telji fjárfestir félag sem hann á hlut í vera of hátt verðlagt, vaknar nefnilega spurningin, hvar á að fjárfesta annars staðar?

Eitthvað verður að gera með fjármunina. Og ekki er um auðugan garð að gresja. Sú staða getur leitt til þess að fjárfestar sitja á þeim bréfum sem þeir eiga.

Það er jákvætt fyrir markaðinn að fjárfestar líti ekki öll félögin sömu augum og t.d. selji bréf við slæm uppgjör. Þessi tilhneiging hefur aukist að undanförnu. Til þess að auka skoðanaskipti á okkar litla markaði þarf að vera möguleiki á að skortselja bréf í meira mæli.

Það sem stendur skortsölu á íslenska markaðnum einna helst fyrir þrifum er að það er í raun enginn til að lána bréf í slík viðskipti, en til þess að skortselja þarf að fá bréf lánuð tímabundið. Lífeyrissjóðir, sem eru áberandi á hluthafalistum skráðra fyrirtækja, mega það ekki og verðbréfasjóðum eru einnig settar miklar skorður í þessum efnum. Þótt erfitt sé að fá lán til skortsölu, er auðvelt að fá lán til að veðja á gengishækkun. Hér ríkir því ákveðið ójafnvægi. Þeir sem lána hlutabréf sín í skráðum fyrirtækjum til skortsala, væntanlega stórir hluthafar sem vilja eiga bréf sín í viðkomandi fyrirtæki til lengri tíma, geta þá fengið viðbótartekjur út á þessa eign sína.

Áhugavert er að í gjaldeyrishöftum hafi þau félög sem hafa hvað mest umsvif erlendis ekki hlotið náð fyrir augum fjárfesta á tímabilinu. Rétt er að lesa ekki um of í lækkunina hjá Össuri vegna þess hve lítil viðskipti hafa verið með bréfin.

Eftir hrun hafa fjárfestar rennt hýru auga til íslenskra félaga, sem hægt er að kaupa bréf í fyrir krónur, með erlendar tekjur. Líta má á þá fjárfestingu sem erlenda eign. Engu að síður hefur Marel lækkað um 15% á þriggja mánaða tímabili sem lýkur 2. apríl. Hin miklu erlendu umsvif hafa ekki dugað til að halda genginu uppi en félagið hefur birt nokkur uppgjör sem fjárfestar hafa verið óánægðir með.

Eimskip er annað félag með miklar tekjur í erlendri mynt en það lækkaði lítillega á tímabilinu sem er til skoðunar. Fyrirtækið kom á markað rétt fyrir áramót og hækkaði vel. Fjárfestar innleystu hagnað og í kjölfarið lækkuðu bréfin. Þar var því um að ræða þetta klassíska „yfirskot og leiðrétting“.

Gengi Vodafone hefur þurft að þola mikinn skell eftir að félagið birti uppgjör sem var fjárfestum ekki að skapi.

Tryggingafélögin VÍS og TM voru skráð á hlutabréfamarkað á tímabilinu og hafa hækkað vel sé miðað við almenna útboðsgengið. Rætt hefur verið um að skrá Sjóvá á hlutabréfamarkað og miðað við hve vel þessar skráningar hafa gengið ættu eigendur Sjóvár að hugsa sér gott til glóðarinnar.

Marel er stærst
» Marel er stærsta félagið í Kauphöllinni, metið á 96 milljarða króna, segir í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.
» Greiningardeildin horfir framhjá Össuri vegna lítilla viðskipta og því er Icelandair næststærst, metið á 65 milljarða króna.
» Eimskip er í þriðja sæti, metið á 54 milljarða króna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK