Ekki er nægur pólitískur stuðningur fyrir því í Póllandi að taka upp evruna sem gjaldmiðil landsins. Þetta hefur pólska dagblaðið Gazeta Wyborcza eftir Donald Tusk, forsætisráðherra landsins.
Fram kemur í fréttinni að fyrir vikið sé ekki raunhæft að Pólverjar taki upp evru sem gjaldmiðil sinn fyrir árið 2019. Breyta þyrfti stjórnarskrá Póllands til þess sem kallaði á stuðning 2/3 þingsins. „Við höfum ekki slíkan meirihluta og við munum ekki hafa hann á næsta kjörtímabili heldur.“
Pólverjar gengu í Evrópusambandið árið 2004 og eru skuldbundnir samkvæmt aðildarsamningi sínum að taka evruna upp sem gjaldmiðil sinn strax og efnahagsleg skilyrði þess eru uppfyllt. Pólsk stjórnvöld hafa hins vegar dregið lappirnar í þeim efnum og meðal annars sagt að þau vildu sjá hvaða áhrif efnahagserfiðleikarnir á evrusvæðinu hefðu á það.