Ferðaþjónustufyrirtækið The Traveling Viking hefur í samstarfi við Iceland Travel, dótturfélag Icelandair, hafið markaðssetningu á sérstökum Game of thrones ferðum til Íslands í vetur. Gert er ráð fyrir 4-5 daga ferð, en helsta markaðssvæðið er Bretland. Rósa Stefánsdóttir, hjá Iceland Travel, segir að þau hafi séð tækifæri vegna mikils umtals og áhuga á Íslandi. Þá hafi þetta verið fullkomið tækifæri til að ýta undir verkefnið um Ísland sem áfangastað allt árið.
Jón Þór Benediktsson, eigandi ferðaskrifstofunnar The Traveling Viking, segir að fólk hafi sýnt þessum tengslum Game og thrones og Íslands töluverðan áhuga. „Strax í fyrra vetur þegar við vorum að keyra hér í kringum Mývatn í tengslum við norðurljósapakkana okkar, þá var Game of thrones liðið frá HBO sjónvarpsstöðinni að mynda í Mývatnssveit. Í kjölfarið kom þessi hugmynd,“ segir Jón Þór.
Ferðirnar eru markaðssettar gagngert sem ferðir til Íslands vegna Game of thrones þáttanna sem hafa notið mikilla vinsælda bæði hér á landi og erlendis. „Hugmyndin er að farþegarnir fljúgi til Reykjavíkur, gisti þar eina nótt og haldi svo norður. Næsta dag er svo farið á tökuslóðir þar sem verið var að mynda. Þetta er hefðbundin Mývatnsferð með Game of thrones þema,“ segir Jón Þór, en auk þess er komið við í jarðböðunum og Dimmuborgum áður en haldið er til Akureyrar.
Þegar Jón Þór er spurður hvort aðdáun hans á þáttunum hafi ýtt þessu af stað segir hann svo ekki vera. „Ég hafði ekki einu sinni séð þættina áður en samningurinn var gerður.“ Hann segist í dag vera búinn að horfa á þættina og lesa söguna, enda orðinn aðdáendi. „Eins og allir sem hafa horft á þættina, þá er maður búinn að ánetjast þessu“.
Aðspurður um hvort hann sjá fyrir sér mikinn vöxt í iðnaði tengdum ferðaþjónustu og kvikmyndum segir hann þetta vaxtamöguleika, en að eins og í öllu þurfi að passa að stíga skrefið varlega. „Ef við höldum vel á spöðunum og pössum að gera ekki of mikið úr hlutunum, þá er þetta rosalega gott til að hafa með og góð landkynning. En við Íslendingar virðumst alltof oft fara skrefinu of langt. Ég tel því að þarna séu tækifæri, en að fara þurfi hóflega í slík verkefni.“