Sérstakur saksóknari birti í gær sex manns ákæru vegna milljarðagreiðslna út úr fjárfestingarfélaginu Milestone til Ingunnar Wernersdóttur árin 2006 og 2007, sem taldar eru varða við hegningarlagaákvæði um umboðssvik. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Á meðal ákærðu eru bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir, sem áttu meirihluta í Milestone og sátu í stjórn félagsins en Karl var stjórnarformaður. Guðmundur Ólason, fyrrverandi forstjóri Milestone er einnig ákærður sem og þrír endurskoðendur hjá endurskoðunarskrifstofunni KPMG.
Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að málið snýst um greiðslur sem runnu út úr Milestone til Ingunnar Wernersdóttur árin 2006 og 2007. Niðurstaða saksóknara sé að Karl, Steingrímur og Guðmundur hafi í sameiningu tekið ákvörðun um að greiða Ingunni um 4,8 milljarða á þessu tímabili og losa hana þannig undan eign sinni í Milestone.
Greiðslurnar bárust henni mánaðarlega á löngu tímabili, á grundvelli samkomulags um að hún léti af hendi öll bréf sem hún átti í félaginu.
Ingunn er ekki ákærð í málinu þrátt fyrir að hafa notið ávinnings af meintum brotum.