Lánshæfiseinkunn Íslands hjá alþjóðlega matsfyrirtækinu Moody's er óbreytt, Baa3, í nýrri skýrslu um Ísland. Fyrirtækið segir ýmislegt á batavegi í íslensku efnahagslífi en skuldastaða ríkissjóðs sé erfið og ekki bæti gjaldeyrishöftin úr skák.
í árlegri skýrslu Moody's um Ísland kemur fram að einkunnin Baa3 endurspegli vel stöðu Íslands. Efnahagslífið sé á batavegi eftir efnahagskreppuna og skammtímahorfur góðar þrátt fyrir að dregið hafi úr hagvexti á síðasta ári.
Hvað varðar horfur til lengri tíma skipti miklu máli hversu miklar fjárfestingar verða og þar sé veigamesti þátturinn hvenær og hvernig gjaldeyrishöftum verði aflétt.
Góður árangur á árunum eftir hrun
Ríkisstjórn Íslands hafi komið efnahagslífinu, fjármálakerfinu og fjármálum hins opinbera á rétta leið og mikilvægar breytingar hafi verið gerðar á stofnunum ríkisins og bankakerfinu svo hægt sé að forða landinu frá öðru hruni.
Moody's telur fjárhagslegan styrk íslenskan ríkisins lítinn einkum vegna mikilla skulda hins opinbera. Á sama tíma hafi stjórnvöldum tekist að lækka skuldir hins opinbera verulega frá árinu 2008 og á síðasta ári hafi í fyrsta skipti frá hruni dregið úr skuldum hins opinbera.
Horfur á næstu árum byggi á því hvernig ríkisstjórninni takist til við að tryggja fjárhagslega stöðu ríkisins og að draga áfram úr skuldasöfnun hins opinbera.