„Það eru engar tölur komnar á hreint, en það er ljóst að reksturinn er erfiður. Við ætlum að sjá hvernig júlí og ágúst koma út og meta svo stöðuna í framhaldinu,“ segir Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, í samtali við Vikudag um rekstur almenningssamganga á svæðinu.
Eyþing heldur uppi almenningssamgöngum á svæðinu í samvinnu við Strætó bs., auk áætlunarferða á milli Akureyrar og Reykjavíkur.
Fjallað er um erfiðan rekstur Strætó í Vikudegi í dag. Heimildir blaðsins herma að sveitarfélögin í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum megi eiga von á 20 milljóna króna reikningi. Heimamenn hafa óskað eftir fundi með innanríkisráðherra.