Segir Dreamliner ekki vera áreiðanlega

Boeing 787 Dreamliner flugvélarnar hafa verið til mikilla vandræða vegna …
Boeing 787 Dreamliner flugvélarnar hafa verið til mikilla vandræða vegna bilana síðan þær voru teknar í notkun. AFP

Einn framkvæmdastjóra flugvélaframleiðandans Airbus segir að nýja Dreamliner vél samkeppnisaðilans Boeing sé ekki áreiðanleg og að henni hafi verið ýtt of snemma út á markaðinn. Þetta er í fyrsta skipti sem yfirmaður hjá Airbus tjáir sig um erfiðleika Boeing með nýju vélina, en þær voru kyrrsettar í janúar á þessu ári eftir að upp komst um galla í rafbúnaði vélarinnar.

Framkvæmdastjórinn, John Leahy, er yfirmaður sölumála hjá Airbus og hefur unnið hjá fyrirtækinu síðan 1994. Í ræðu, sem hann hélt á hátíðarhöldum vegna afhendingar á þúsundustu A330 vélinni, sagði Leahy að hægt væri að fljúga Dreamliner vélunum en að það yrði kostnaðarsamt og að kostaði mikið viðhald.

„Þetta mun taka tíma, peninga og fjölda fluga verður aflýst. Mögulega er líka þörf á endurhönnun á nokkrum kerfum,“ sagði Leahy. 

Dreamliner vélar voru kyrrsettar í janúar á þessu ári þegar bilun í rafhlöðum leiddi til lítils eldsvoða í rafkerfi vélanna. Í kjölfar þess fyrirskipaði bandaríska flugmálastjórnin allsherjarskoðun á framleiðslu og hönnun 787-vélanna með sérstakri áherslu á rafbúnaðinn.

Í apríl aflétti flugmálastjórnin kyrrsetningunni eftir stranga skoðun, en í síðustu viku kviknaði svo eldur í mannlausri Dreamliner vél á Heathrow í London. Var atvikið rakið til batterís í neyðarsendi. Í framhaldinu hefur því verið beint til rekstraraðila Dreamliner flugvéla að aftengja sendana.

Á þriðjudaginn kom svo upp nýjasta atvikið þegar Dreamliner vél frá Japan Airlines þurfti að snúa við á flugi frá Boston til Tokyo vegna bilunar í dælubúnaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK