Rekstur Primera Travel Group, sem er alfarið í eigu Andra Más Ingólfssonar, hefur mikil umsvif í Skandinavíu. Aðeins 3% veltunnar má rekja til Íslands.
Fyrirtækið velti 91,5 milljörðum króna árið 2012 og hagnaðist um 1,5 milljarða. Afkoman fyrir skatta og fjármagnsliði nam 2,2 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfallið var 30%.
„Markaðurinn í Skandinavíu er ágætur um þessar mundir. Við erum að uppskera eftir margra ára aðhald í rekstri. Undanfarin ár höfum við glímt við áföll á borð við eldgosið á Íslandi, byltinguna í Egyptalandi og hæsta olíuverð í sögunni. Þessi áföll höfðu mikil áhrif á reksturinn; tjónið hleypur á milljörðum en okkur tókst að skila hagnaði öll undanfarin ár,“ segir Andri Már meðal annars í samtali um starfsemi Primera Travel í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.
Hagnaður ársins 2013, miðað við uppfærða áætlun eftir sex mánaða uppgjör, er áætlaður 1,8 milljarðar eftir skatta, að hans sögn.