Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's hefur breytt horfum fyrir lánshæfi íslenska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar. Ísland er áfram með lánshæfiseinkunnina BBB-. Ef einkunn íslenska ríkisins verður lækkuð þýðir það að skuldabréf ríkissjóðs fara í ruslflokk.
Bloomberg fréttastofan greinir frá þessu en þar kemur fram að S&P vísi til þess að ef skuldir heimilanna verði lækkaðar þá geti það aukið þrýsting á fjármál hins opinbera.
Í tilkynningu frá S&P kemur fram að ef áform ríkisstjórnarinnar um að afskrifa hluta af skuldum heimilanna geti þýtt verulega fjárhagslega hættu fyrir Ísland. Þetta geti haft þær afleiðingar í för með sér að skuldir ríkisins geti aukist verulega.