Framhaldsaðalfundur Vinnslustöðvarinnar samþykkti í dag að greiða hluthöfum 1,1 milljarð í arð. Fyrirtækið hagnaðist um jafnvirði 2,3 milljarða króna árið 2012. Heildartekjur samstæðunnar voru 15,7 milljarðar króna og jukust um 6% frá fyrra ári.
Vegna dóms Hæstaréttar Íslands frá 26. mars 2013, þar sem ógilt var ákvörðun hluthafafundar í félaginu í september 2011 um samruna Ufsabergs-útgerðar ehf. og Vinnslustöðvarinnar hf., varð að breyta ársreikningum Vinnslustöðvarinnar fyrir árin 2011 og 2012. Reikningar beggja ára voru kynntir á aðalfundinum í júní en ákveðið að efna til framhaldsaðalfundar nú til að afgreiða þá.
Í fréttatilkynningu frá Vinnslustöðinni segir að afkoma Vinnslustöðvarinnar 2012 hafi verið góð í heildina tekið en ýmsar blikur séu á lofti á erlendum mörkuðum, sem geti eðlilega haft neikvæð áhrif á reksturinn. Verð bolfisk- og síldarafurða hefur þannig lækkað verulega undanfarna mánuði og vart verður aukinnar tregðu í sölu humarafurða. Afurðaverð mjöls og lýsis hefur hins vegar verið stöðugt.
Á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar kom einnig fram að framlegðin jókst lítillega frá fyrra ári. Efnahagur félagsins er sterkur og skuldir minnkuðu um 10% í evrum talið. Heildarskuldir voru 12,3 milljarðar króna í lok árs 2012. Eiginfjárhlutfall er 41% en var 35% í árslok 2011. Veltufé frá rekstri dróst saman um 14%.
Aðalfundurinn samþykkti að greiða hluthöfum Vinnslustöðvarinnar 6,8 milljónir evra í arð, jafnvirði um 1,1 milljarðs króna. Arðurinn nú jafngildir tæplega 13% af eigin fé félagsins. Sé horft til undanfarins áratugar hafa arðgreiðslur í félaginu verið verið á bilinu 7-22% af eigin fé þess nema árið 2009 þegar enginn arður var greiddur.
Áhrifa veiðigjalda gætti strax á árinu 2012 og þeirra mun gæta að fullu núna á árinu 2013, þegar Vinnslustöðin greiðir um 850 milljónir króna í veiðigjöld.
Fyrri ríkisstjórn fjórfaldaði veiðigjöld Vinnslustöðvarinnar en núverandi ríkisstjórn boðaði að lögum yrði breytt og veiðigjöldin myndu lækka. Í fréttatilkynningunni segir að útfærsla þeirra breytinga valdi hins vegar vonbrigðum og hafi óveruleg áhrif gagnvart Vinnslustöðinni.
Vinnslustöðin hefur gengið frá kaupum á Stíganda ehf. í Vestmannaeyjum, sem á og gerir út samnefndan togbát í Vestmannaeyjum. Með í kaupum fylgja aflaheimildir upp á um 1.300 þorskígildistonn.
Vinnslustöðin hefur selt frystitogarann Gandí VE til Færeyja. Skipið hefur verið afhent nýjum eigendum í Fuglafirði og stundar nú makrílveiðar við Færeyjar.
Hluthafafundur Vinnslustöðvarinnar í júní 2013 staðfesti kaup á 28,88% hlut í Ufsabergi-útgerð ehf. í Vestmannaeyjum. Vinnslustöðin á nú tæplega 64% eignarhlut í Ufsabergi-útgerð, sem á og rekur togbátinn Gullberg.
Eftir að Hæstiréttur Íslands ógilti ákvörðun hluthafafundar Vinnslustöðvarinnar, um samruna VSV og Ufsabergs-útgerðar, var félögunum skipt upp á nýjan leik. Meirihluti stjórnar VSV samþykkti jafnframt að fela KPMG að fara yfir uppskiptin með lögmönnum sínum og endurskoðendum til að tryggja að í einu og öllu hefði verið staðið rétt að málum.