„Það er með ólíkindum hvers lags söfnuður hefur safnast fyrir í bankakerfinu. Og eru kallaðir sérfræðingar. Þeir hafa ekki hundsvit á rekstri.“ Þetta segir Björn Halldórsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda, sem furðar sig á afstöðu bankakerfisins til minkaræktar.
Heimsmarkaðsverð á skinnum hefur hækkað mikið á skömmum tíma. Á fimm árum hefur það hækkað um 170% en á sama tíma hefur framleiðslukostnaður hækkað um 80%.
Björn segir í samtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins, að önnur hver króna sem komi í kassann nú sé hreinn hagnaður. „Það kostar rúmlega sex þúsund krónur að framleiða skinn. Það sem af er ári höfum við selt um 85% framleiðslunnar og er meðalverðið um 13 þúsund krónur. Í fyrra seldust skinnin á tólf þúsund krónur og framleiðslan kostaði sex þúsund krónur. Meðalbú framleiðir um sjö þúsund skinn og hagnaðurinn er um það bil þrisvar sinnum meiri en veltan hjá meðal sauðfjárbúi,“ segir hann.
Miðað við umræddar tölur veltir meðalbú um 90 milljónum króna á ári og hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði er um 45 milljónir. Útflutningstekjur greinarinnar námu rúmlega 1,6 milljörðum króna í fyrra og segir Björn að þær verði væntanlega í kringum tvo milljarða í ár. Heimsframleiðslan á minkaskinnum nemi 60 milljónum og greinin velti um 3.000 milljörðum króna á ári.
Björn segir að minkaræktin gæti vaxið hraðar hér á landi ef greinin fengi eðlilega bankafyrirgreiðslu. „Stærsta hindrunin er íslenskt fjármálakerfi. Það vill ekki lána okkur. Bankamenn vilja ekki lána landsbyggðinni. Við getum auðveldlega sýnt þeim gögn til að varpa ljósi á hver staðan er í rekstrinum, t.d. að við fáum næsthæsta verð í heimi fyrir skinnin. En þegar við ræðum við þá horfa þeir út í loftið eins og hálfvitar. Það er með ólíkindum hvers lags söfnuður hefur safnast fyrir í bankakerfinu. Og eru kallaðir sérfræðingar. Þeir hafa ekki hundsvit á rekstri. Það sést á því hvernig þeir fóru með bankana. Og þeir hafa ekki hundsvit á því hvernig samfélagið virkar. Það sést á því hvaða laun þeir taka.
Bankastarfsemin stendur vexti í greininni fyrir þrifum. Hjá uppboðshúsinu í Kaupmannahöfn, sem selur öll okkar skinn og veltir 250 milljörðum króna á ári, fáum við rekstrarlán með veði í framleiðslunni og borgum 3,5% vexti. En þeir endurlána fjármuni sem þeir fá að láni hjá Nordea bank í Danmörku. Ég er ekki að kalla eftir því að fá lánsfjármagn á sömu kjörum hér á landi. Ég er einungis að kalla eftir sanngjörnum og eðlilegum kjörum, líkt og gengur og gerist hjá okkar kollegum, en þeir vilja helst ekkert lána okkur og þau lánakjör sem bjóðast á Íslandi eru ansi há: eru oft 7-8% vextir,“ segir Björn.