Síðustu ár hefur sala á nýjum bílum verið langt undir langtímameðaltali. Ýmsar ástæður hafa verið gefnar upp fyrir þessari litlu sölu, meðal annars lægri kaupmáttur landsmanna, verri eiginfjárstaða, hertar lánareglur og bið eftir endurútreikningum á lánum. Forsvarsmenn bílaumboðanna hafa hingað til verið nokkuð bjartsýnir og vonast eftir auknum kaupmætti eða að endurútreikningar færu hratt í gegn.
Bílgreinasambandið birti í gær tölur yfir bílasölu það sem af er ári, en selst hafa 5439 nýir fólksbílar á fyrstu sjö mánuðum ársins. Er það svipaður fjöldi og á sama tímabili í fyrra, en bílaleigurnar hafa að miklu leiti haldið sölutölum uppi. Þrátt fyrir að salan sé svipuð virðist einhver gangur hafa verið í sölu seinni part sumarsins, en rúmlega 10% aukning varð í sölu í júlí miðað við sama mánuð í fyrra.
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri bílaumboðsins Öskju og formaður bílgreinasambandsins, segir í samtali við mbl.is að þrátt fyrir að þær aðgerðir sem vonast var eftir hafi ekki gengið eftir sem skildi, þá sé ljóst að sú gífurlega uppsafnaða þörf sem sé komin á nýja bíla, bæði hjá fyrirtækjum og fjölskyldum, muni brátt fara að koma fram á sölutölum.
Þá segir hann að með auknum fjárfestingum, til dæmis í hótelbyggingum, fari vonandi hagur iðnaðaraðila að vænkast sem gæti smitast út í endurnýjun á tækjakosti hjá fyrirtækjum í þeim geira. Mikill vöxtur í ferðaþjónustunni hafi einnig skilað töluverðri sölu, bæði til bílaleiga og til hópferðafyrirtækja sem kaupi rútur.
Hann segir að nokkuð hafi borið á því að ungt fólk sem ætli í sín fyrstu bifreiðakaup eigi erfitt með að finna notaðar bifreiðar sem ekki séu orðnar of gamlar. Þetta orsakist af því að á árunum 2009 til 2011 hafi innflutningur á bílum verið mjög lítill. Því sé í dag mjög erfitt að finna slíka bíla á bílasölum.
Jón Trausti bendir þó á að margir séu farnir að átta sig á því að ekki sé endilega hagstæðara að fjárfesta í eldri bílum. Þannig séu nýir bílar allt að 30% sparneytnari heldur en sömu bílar fyrir rúmlega fjórum árum. Auk þess séu vörugjöld á sparneytnum bílum oft á bilinu 10-15% í stað 30% áður og til viðbótar bætist ábyrgð og minni bilanir á nýlegri bílum.
Þá sé markaðurinn farinn að finna nýjar leiðir og í dag seljist mun minna af stórum jeppum, meðan sveiflan sé í átt að litlum sparneytnum bílum. Jón Trausti segir að einnig sé greinanlegur munur á því að fleiri kaupi nú dísilbíla og að beinskiptir bílar séu aftur að verða vinsælli en þeir sjálfskiptu.
Hann segir að með hliðsjón af þessum atriðum og áætlunum um að fyrirtæki fari í auknum mæli að endurnýja bílaflotann, þá búist hann við um 5% heildaraukningu í sölu á þessu ári og að nýskráðir bílar verði um 8000 til 8500 í lok ársins.