Í júlí flutti Icelandair Group 306 þúsund farþega í millilandaflugi og voru þeir 11% fleiri en í júlí á síðasta ári. Þetta er í fyrsta skipti sem félagið flytur yfir 300 þúsund farþega í einum mánuði. Framboðsaukning á milli ára nam 12% og sætanýting var 86,2% samanborið við 85,4% á sama tíma í fyrra. Farþegum fjölgaði mest á Norður-Atlantshafsmarkaðinum eða um 15,7% og voru þeir 53% af heildarfarþegafjölda félagsins í millilandaflugi í júlí.
Farþegar í innanlandsflugi og Grænlandsflugi voru rúmlega 32 þúsund í júlí og fækkaði um 10% á milli ára. Framboð félagsins í júlí var dregið saman um 15% samanborið við júlí 2012.
Sætanýting nam 73,8% og jókst um 6,5 prósentustig á milli ára. Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 11% á milli ára. Fraktflutningar jukust um 9% frá því á síðasta ári. Fjöldi seldra gistinótta á hótelum félagsins jókst um 4% milli ára. Herbergjanýting var 89,2% samanborið við 88,4% í júlí í fyrra.