Hætta er á öðru efnahagshruni á Íslandi samkvæmt grein sem birtist á vef Fortune í dag undir fyrirsögninni: Iceland is Europe's ticking time bomb - again, eða: Ísland er tifandi tímasprengjan í Evrópu á ný.
Óttast greinarhöfundur að ef annað hrun verði á Íslandi geti það þýtt valdið skelfingu í álfunni á ný.
Segir í greininni að ótrúlegur efnahagsbati á Íslandi frá hruni hafi vakið mikla athygli en frá árinu 2008 hafi landinu tekist að forðast niðursveiflu ólíkt flestum öðrum Evrópuríkjum. Þetta megi rekja til ákvörðunar stjórnvalda að koma á gjaldeyrishöftum sem hafi haldið krónunni á floti. Á sama tíma hafi verið komið í veg fyrir að bankarnir féllu algjörlega.
Hins vegar séu þeir múrar sem reistir hafi verið af stjórnvöldum og bönkum byrjaðir að gliðna. Því miður sé ekki mikið sem Ísland getur gert til þess að bjarga sér á þessari stundu, að sögn greinarhöfundar.
Óttast greinarhöfundur hvaða áhrif þetta muni hafa á Evrópu á næstu mánuðum. Fyrir hrun hafi Ísland minnt meira á vogunarsjóð heldur en sjálfstætt ríki. Bankarnir hafi verið tíu sinnum stærri en árleg landsframleiðsla íslenska ríkisins. Að lokum hafi þetta allt hrunið eins og þekkt er orðið.
Ríkisstjórn Íslands hafi brugðist strax við og með aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafi gjaldeyrishöftum verið komið á. Frá þeim tíma hafi vöxturinn verið mun meiri á Íslandi en í nágrannaríkjunum. Dregið hefur verulega úr atvinnuleysi og væntingavísitalan er á uppleið. Mikill vöxtur hafi verið í ferðamennsku og hún er nú önnur af undirstöðunum í íslensku atvinnulífi ásamt sjávarútvegi.
Greinarhöfundur, Cyrus Sanati, virðist hafa litla trú á þeim upplýsingum sem hafa birst um efnahagsbatann á Íslandi undanfarið og segir að ekki megi hunsa Ísland, land sem er það lítið að það getur ekki sópað vandanum undir teppið.