Hagvöxtur mældist 0,3% á öðrum ársfjórðungi á evrusvæðinu og er þetta í fyrsta skipti í 18 mánuði sem hagvöxtur mælist. Sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir 0,2% hagvexti og er því niðurstaðan jákvæðari en vænst hafði verið. Þýskaland og Frakkland leiddu vöxtinn á svæðinu, en hagvöxtur þar var 0,7% og 0,5%.
Á Spáni og Ítalíu, sem hafa átt við mikla skuldakreppu að etja, voru tölurnar neikvæðar, en samdrátturinn á Spáni var 0,2% og 0,1% á Ítalíu. Portúgal, sem einnig hefur fengið neyðaraðstoð úr sameiginlegum sjóðum, er aftur á móti með sterka endurkomu og var hagvöxtur þar 1,1%.
Olli Rehn, peningamálastjóri Evrópusambandsins, sagði við birtingu talnanna að það væri enn mikið óunnið í að koma efnahagi svæðisins á rétta braut. Sagði hann nauðsynlegt að halda áfram að einbeita sér að skuldavanda svæðisins, bæði opinberum- og einkaskuldum.