Tæplega fimmtíu milljarða króna vantar upp á, að lágmarki, í gjaldeyri svo Landsbankinn geti að óbreyttu greitt að fullu til baka um 300 milljarða erlenda skuld sína við gamla Landsbankann (LBI). Þetta sýna gögn frá slitastjórn LBI sem Morgunblaðið hefur undir höndum.
Í fréttaskýringu um mál þetta í viðskiptablaði Morgunblaðsins, sem út kom í morgun, kemur meðal annars fram, að slitastjórn LBI telur að hluti lána sem er bókfærður sem erlend eign – um 38 milljarðar – muni ekki skila Landsbankanum samsvarandi gjaldeyristekjum, heldur aðeins krónum.
Að sögn þeirra sem vel þekkja til er þó ekki ósennilegt að raunveruleg gjaldeyrisþörf Landsbankans sé talsvert meiri en 50 milljarðar. Stór hluti erlendra eigna bankans eru eignir sem óljóst er hvort hægt verði að umbreyta í laust fé í gjaldeyri áður en greiða þarf LBI um 340 milljarða í vexti og afborganir 2014-2018.