Verðbólga mæld á tólf mánaða tímabili var 1,6% í júlí á evrusvæðinu. Verðbólgan var sú sama að meðaltali í þeim sautján ríkjum sem tilheyra evrópska myntbandalaginu. Í júlí mældist tólf mánaða verðbólga 3,8% á Íslandi.
Samkvæmt upplýsingum frá Eurostat - Hagstofu Evrópu - var verulegur afgangur á viðskiptajöfnuði á evrusvæðinu í júlí.
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,5% frá júnímánuði. Tólf mánaða verðbólga mældist 1,2% á evrusvæðinu í apríl og hafði ekki mælst minni í 38 mánuði. Hún hefur hins vegar aukist síðan á sama tíma og evrusvæðið losnaði út úr niðursveiflu sem ríkt hefur á svæðinu undanfarna átján mánuði. Nam hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi 0,3%.
Innan Evrópusambandsins mældist verðbólgan 1,7% í júlí sem er sama verðbólga og í júní. Verðlag lækkaði um 0,4% í júlímánuði frá júní. Í júlí 2012 mældist verðbólga á evrusvæðinu 2,4% og innan ESB 2,5%.