Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) jókst um 47% á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Nam hagnaður félagsins 1.191 milljón króna samanborið við 811 milljóna króna hagnað á fyrstu sex mánuðum ársins 2012.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að samsetta hlutfallið, sem er hlutfall rekstrar- og tjónakostnaðar af eigin iðgjöldum, hafi numið 86,3% sem er fimm prósentustiga lækkun frá seinasta ári. Hagnaður TM fyrir skatta nam 1.388 milljónum króna borið saman við 965 milljónir á fyrri hluta síðasta árs. Þá var eiginfjárhlutfall félagsins 36% í lok annars ársfjórðungs.
Í tilkynningu segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, afkomuna vera góða og fara batnandi milli ára. „380 milljóna kr. betri rekstrarniðurstaða en á sama tíma í fyrra skýrist af rúmlega fimm prósentustiga lægra samsettu hlutfalli. Samsetta hlutfallið er nú 86,3% sem er mjög gott og stenst samanburð við það sem best gerist hjá vátryggingafélögum í heiminum,“ segir Sigurður.
Hann bendir á að aukin framlegð af vátryggingastarfsemi skýrist af fjölgun viðskiptavina á sama tíma og tjónakostnaður fari lækkandi. „Áætlanir gerðu ráð fyrir hækkun á tjónakostnaði samhliða auknum umsvifum í þjóðfélaginu, sem hafa látið á sér standa.“
Athygli vekur að kostnaðarhlutfall félagsins hækkaði úr 22,4% í 24,7% milli ára en Sigurður segir að ástæður þess séu einskiptiskostnaður vegna skráningar félagsins á hlutabréfamarkað og hærri markaðskostnaður en áætlanir gerðu ráð fyrir. „Það er hins vegar skýr fyrirætlun stjórnenda að standa við áætlun um 21,5%kostnaðarhlutfall fyrir árið í heild.“