Codland-vinnuskólanum var slitið síðastliðinn fimmtudag þann 15. ágúst, en alls tóku 28 krakkar þátt í vinnuskólanum. Nemendur fengu fræðslu um íslenskan sjávarútveg, kynntust frumkvöðlastarfsemi, efnafræðitilraunum og fóru í vettvangsferðir.
Fulltrúar Fisktækniskólans komu og kynntu nám sitt, Erla Ósk Pétursdóttir, verkefnastjóri hjá Vísi hf., flutti fyrirlestur fyrir nemendur um starfsemi Vísis ásamt því að veita þeim innsýn í sína náms- og starfsleið. Farið var í vettvangsferðir í fiskverkunina Stakkavík, harðfiskverkunina Stjörnufisk og Veiðafæraþjónustu Grindavíkur. Fengu nemendur einnig að fara um borð í Tómas Þorvaldsson GK og Hrafn GK hjá Þorbirni þar sem krakkarnir fengu leiðsögn frá skipstjórum. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Að lokum unnu nemendur verkefni þar sem þeir stofnuðu sitt eigið fyrirtæki í nýsköpun og bjuggu til vörubækling sem hver hópur kom fram og kynnti.
Ýmsar skemmtilegar hugmyndir komu fram og má þar nefna lýsistannkrem, pennar úr bleki kolkrabba og hulstur úr fiskileðri fyrir snjallsíma.
Við skólalok var nemendum afhent viðurkenningarskjal sem staðfesti að þeir hefðu lokið námskeiði um nýsköpun í sjávarútvegi. Umsjónarmenn voru ánægðir með árangurinn og stefna að því að halda skólann aftur að ári en vonast er til að hann verði stærri í sniðum og í fleiri landshlutum.