Í dag kom út bókin Ísland ehf., eftir blaðamennina Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson. Í bókinni fara þeir yfir breytingarnar í samfélaginu eftir hrunið, átök og völd um stóru bitana í viðskiptalífinu, viðskiptablokkir og áhrif vogunarsjóða og hrægamma. Blaðamaður mbl.is settist niður með þeim Magnúsi og Þórði og ræddi um aðdraganda skrifanna, hvað hafi komið þeim á óvart og hvernig þeir sjái síðustu fimm ár þegar þeir horfi í baksýnisspegilinn.
Á síðustu árum hafa þeir báðir skrifað mikið um viðskipta- og efnahagslíf hér á landi og segir Þórður að bókin sé að miklu leiti samansafn af því sem þeir hafi skrifað frá því í október 2008 og fram á vormánuði 2013, þegar þeir sögðu báðir upp störfum hjá 365 miðlum. Þá hafi þeir tekið á þriðja tug viðtala í kjölfar þess að ákveðið var að fara í bókaskrifin.
Hugmyndin kom upphaflega frá Jóhanni Páli Valdimarssyni útgefanda hjá Forlaginu, en hann sendi Þórði skilaboð á Facebook. Fljótlega hittust þeir á fundi og segir Þórður að Jóhann hafi verið með hugmyndir um að fá þá til að skrifa bók um eftirmála hrunsins. Þeir hafi hoppað til og skrifað bókina á uppsagnartímanum hjá 365 miðlum „Við skrifuðum hana á 8 vikum, tókum á þriðja tug viðtala, en við áttum allt þetta efni og það vann mjög vel með okkur,“ segir Þórður.
Þegar þeir eru spurðir um stöðuna á Íslandi í dag og hverju þeir hafi komist að þegar þeir hafi farið yfir málið í heild sinni aftur segir Magnús að í dag sé stórmerkileg staða í landinu, sérstaklega þegar horft sé til haftanna og veru erlendu kröfuhafanna.
Magnús segir að það verði alltaf ljósara hvað hrunið hafi haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir fyrirtækin í landinu. „Eignarhald á öllum stærstu fyrirtækjum landsins breyttist. Nánast öll stærstu fyrirtækin fóru í gegnum endurskipulagningu, misjafnlega mikla, en hjá flestum mjög umfangsmikla. Þar var aðferðafræði beitt sem ég held að geti orðið umdeild þegar fram í sækir, það er að leyfa markaðinum ekki að leiðrétta sig,“ segir Magnús.
Hann segir að fyrirtækjum hefði átt að vera leyft að fara í auknum mæli í þrot. Útkoman í dag sé á þá leið að fyrirtæki séu enn mjög skuldsett og að endurskipulagningin hafi verið gerð á forsendum bankanna. Magnús telur að skellurinn, sem fólk talaði um í sambandi við að leyfa stórum hluta fyrirtækja að fara í þrot, hafi sennilega verið ofmetinn og að með slíkri niðurstöðu hefði bankakerfið væntanlega minnkað til muna, efnahagsreikningar fyrirtækja minnkað og lánin strokast út og það á kostnað kröfuhafa.
Sú aðferð sem var farin hafi aftur á móti leitt til þess að ríkið hafi allt í einu verið óbeint að reka stór fyrirtæki á samkeppnismarkaði. „Afleiðingarnar af svona inngripum og skakkri samkeppni, þau eru svakalega lengi að koma fram,“ segir hann.
Þórður tekur í svipaðan streng og segir að þegar litið sé til baka, þá hafi hann áttað sig á því hversu rosalega stórt verkefnið var. „Það var svo margt sem var að gerast á Íslandi haustið 2008 og vorið 2009. Maður var ekki að átta sig á þeirri enduruppbyggingu sem þurfti að eiga sér stað í efnahagslífinu. Það voru allir uppteknir í þessum meintu peningaglæpum og Icesave, ný frétt á hverjum degi,“ segir hann.
Þá hafi ekki verið vandað nægjanlega vel til verka í endurskipulagningu á litlum og miðlungsstórum fyrirtækjum, sem voru keyrð í gegnum beinu brautina. Þannig segir hann til dæmis að mörg fyrirtæki séu í þeirri stöðu á næstunni, þegar biðlánatíminn rennur út að geta ekki endurfjármagnað sig og því megi segja að mögulega blasi ný holskefla af endurskipulagsverkefnum við.
Stærri fyrirtækin hafi svo verið geymd og vandamálinu ýtt á undan sér. Þann tíma hafi margir eigendur nýtt sér til að marka sér stöðu og halda fyrirtækjunum í kjölfar endurskipulagningarinnar.
Þegar umræðan berst að erlendu kröfuhöfunum segir Magnús að það hafi komið sér rosalega á óvart hversu vel undirbúnir stóru kröfuhafarnir hafi verið fyrir fall íslensku bankanna. Hann segir að það sé rakið ágætlega í bókinni, en margt bendi til þess að stærstu fjármálastofnarnir, sem lánuðu mest hingað til lands, hafi verið búnar að kaupa tryggingar gegn falli bankanna og undirbúið sig vel.
Segir Magnús að við fall bankanna hafi þessir aðilar leyst út skuldatryggingarnar sínar og þar með hafi höggið fyrst og fremst lent á stórum tryggingarfélögum, eins og Lloyds og AIG. Þannig sjái menn stóru veðköllin í upphafi árs 2008 með öðrum augum í dag þegar þessi vitneskja sé komin fram. Þegar bankarnir svo féllu og skuldabréfauppboð fóru fram í nóvember voru það þessir stóru lánveitendur, sem höfðu fengið skuldatryggingarnar greiddar, sem seldu skuldabréfin. Á meðan það voru vogunarsjóðirnir sem komu og keyptu bréfin.
Næstu mánuðir munu að mati Þórðar skipta miklu máli, en meðal annars verði áhugavert að sjá hvernig fara eigi í það að leysa gjaldeyrishöftin og losa um eignarhaldið á viðskiptabönkunum. Þá sé staða lífeyrissjóðanna, sem í skjóli haftanna kaupi allt sem er til sölu, mjög umhugsunarverð. Spurðir út í það hvort þeir sjái höftin hverfa á næstunni bendir Þórður á að Seðlabankinn hafi á síðustu misserum gefið út vísbendingar þess efnis að við þurfum að búa við fjármagnshöft mun lengur en vonast hafi verið eftir.