Slitastjórn Glitnis hefur samið við John Eatwell prófessor um að hann leggi mat á þjóðhagslegar stærðir og efnahagsskýrslur sem tengjast íslenska hagkerfinu. Verkefni hans verður að greina þjóðhagsleg áhrif ýmissa málefna sem hafa þýðingu fyrir endurskipulagningu þrotabús Glitnis hf. með nauðasamningum og önnur þrotabú íslenskra fjármálastofnana. Þetta kemur fram á heimasíðu slitastjórnarinnar.
Eatwell lávarður er forseti Queens’ College við Cambridge-háskóla í Bretlandi. Hann hefur kennt við Harvard-háskóla og verið gistiprófessor við háskólana í Columbía-ríki, Massachusetts-háskólann í Amherst, háskólann í Amsterdam og Nýja félagsvísindaskólann í New York.
Hann er einnig í stjórnendahópi kreditkortafyrirtækisins SAV Credit og ráðgjafi fjárfestingarfyrirtækjanna Warburgs Pincus & Company International og Palamon Capital Partners.
Á árinu 1988 var hann í hópi þeirra sem höfðu forgöngu um að koma á fót Rannsóknarstofnun í opinberri stefnumótun (Institute for Public Policy Research) sem er ein af öflugustu hugmyndaveitum Bretlands, að því er segir í tilkynningunni.
Hann var skipaður í lávarðadeild breska þingsins árið 1992, og frá 1993 til 1997 var hann talsmaður stjórnarandstöðunnar í málum sem varða ríkissjóð og efnahagsstjórn. Hann tók aftur við þessu hlutverki árið 2010.
Eatwell lávarður var stjórnarformaður breska landsbókasafnsins 2001 til 2006. Hann er um þessar mundir meðal annars fulltrúi í fjárhagsráði Jersey og í stjórn lífeyrissjóðs Konunglegu óperunnar í Lundúnum.