Laxeldið er komið til að vera og enginn rökstuddur grunur er um að mengun frá laxeldi í sjókvíum á Íslandi síðastliðinn áratug hafi valdið tjóni á lífríkinu í hafinu. Þá hafa engin lyf verið notuð til aflúsunar hérlendis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landssambandi fiskeldisstöðva, en þar segir að heildarfjöldi laxaseiða sem sett eru í kvíar á hverju ári hér við land séu þriðjungur þess sem var sleppt á stærstu hafbeitarárunum. Samkvæmt tölum úr fiskeldi í Noregi eru slysasleppingar innan við 0,05%.
Nýlega var fjallað um niðurstöðvar rannsóknar um áhrif eldislax á stofngerð náttúrulegs lax og kom þar fram að líklega hefði erfðablöndun raskað stofngerð villta laxins.
Í tilkynningunni segir að hagur þeirra sem stundi kvíaeldi sé að halda fisknum í kvíunum, öfugt við þá sem stunduðu hafbeit. Þá segir Jón Kjartan Jónsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva, að reglur hér séu strangari en gengur og gerist. „Laxeldi á Íslandi er að festa sig í sessi. Það býr við einhverjar ströngustu reglur sem þekktar eru varðandi starfsemi sína. Við höfum tilgreind svæði til að starfa á og munum beita bestu þekktu tækni til eldisins, ekki síst með tilliti til sjúkdómavarna og áhrifa á umhverfið þar með talið slysasleppinga.“
Bent er á að laxeldi sé mjög stór atvinnugrein í Evrópu, sérstaklega Noregi, en þar eru framleiddar 1,3 milljónir tonna af laxfiskum sem er svipað og heildarfiskafli Íslendinga síðustu ár.