Móðurfélag Ístaks gjaldþrota

Óperuhúsið í Kaupmannahöfn var meðal þeirra verkefna sem E. Pihl …
Óperuhúsið í Kaupmannahöfn var meðal þeirra verkefna sem E. Pihl & Son sá um að byggja. mynd/wikipedia.org

Danski verktakarisinn E. Pihl & Son hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum, en meðal dótturfélaga þess er íslenska verktakafyrirtækið Ístak. Ekki er enn ljóst hvaða áhrif gjaldþrotið mun hafa á rekstur íslenska félagsins. Meðal verkefna sem E. Pihl & Son hafa unnið síðustu árin eru Stórabeltisbrúin, óperuhúsið í Kaupmannahöfn og stækkun Húsnæðis iðnaðarins á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn.

Í tilkynningu frá stjórn félagsins segir að það sé tilneytt til að „taka þá erfiðu ákvörðun að sækjast eftir gjaldþrotaskiptum þar sem félaginu mistókst að finna fjárhagslega niðurstöðu sem gæti haldið rekstrinum gangandi“. Þetta kemur fram í frétt Börsen í dag.

Fyrr á árinu var ný stjórn skipuð yfir félaginu, en mikil útþenslustefna árin á undan hafði mistekist. Var það meðal annars vegna þess að ekki hafði verið gætt að fjárhagsgetu undirverktaka og verkkaupenda. Þá segir að ekki hafi verið nægjanlega vel horft til gæða verkefna og áhættugreiningar þegar farið var í útþensluna. 

Í byrjun ársins var ný stjórn skipuð yfir E. Pihl & Son og var íslenskum forstjóra þess, Halldóri P. Ragnarssyni, sagt upp störfum í kjölfar lélegrar afkomu árið á undan. Danske Bank, sem er helsti viðskiptabanki E. Pihl & Son, tók í kjölfarið hlutabréf fyrirtækisins að veði fyrir skuldum þess.

Í frétt Börsen segir að nýju stjórninni hafi ekki tekist að koma rekstrinum á réttan kjöl og að hún muni nú aðstoða bankann í að brjóta niður fyrirtækið til sölu.

Í síðasta ársreikningi kom fram að starfsmenn fyrirtækisins voru 2.300 og námu tekjur ársins 2012 5,5 milljörðum danskra króna. Tap ársins var 473 milljónir danskra króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK