Væntingar íslenskra neytenda til efnahags og atvinnulífs mælast nú þær minnstu frá mars 2012. Væntingavísitala Gallup, sem birt var í morgun, lækkar í ágústmánuði um 12,2 stig frá fyrri mánuði og mælist nú 66,3 stig. Kemur lækkunin á hæla mikillar lækkunar vísitölunnar í júlímánuði. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka.
Þar segir að væntingavísitalan hafi mælst rétt um 100 stig í maí og júní, sem felur í sér að álíka margir svarendur voru bjartsýnir og svartsýnir á ástand og horfur í íslensku efnahagslífi, en nú virðist svartsýnin hafa vinninginn að nýju.
Meginskýringin á lækkuninni nú liggur í mikilli lækkun væntinga til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði. Lækkar sú undirvísitala um rúmlega 20 stig, en hún er nú 86,3 stig. Er það í fyrsta sinn á þessu ári sem þessi undirvísitala fer undir 100 stig, en í því felst að flestir svarendur telja nú að ástandið í atvinnu- og efnahagsmálum verði verra að hálfu ári liðnu.
Skipting svara eftir tekjum svarenda er athyglisverð. Þeir sem hafa lágar tekjur eru nú býsna svartsýnir í svörum, en talsvert dregur úr svartsýninni eftir því sem tekjur hækka. Í maí var hins vegar lítill munur á svörum eftir tekjum, og raunar voru þeir tekjulægstu og hinir tekjuhæstu þá bjartsýnni en fólk með meðaltekjur.
Engin ein augljós skýring er á þessari miklu lækkun væntingavísitölunnar frá vormánuðum að sögn greiningardeildarinnar. Þó má benda á að vísitalan tekur gjarnan sveiflu í kringum alþingiskosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar þar sem vísitalan hækkar strax í kjölfar kosninga en lækkar síðan oft að nýju. Hreyfingin nú er hins vegar stærri en raunin hefur verið á fyrri kosningaárum.
Hugsanlegt er að væntingar um bættan hag heimilanna fljótlega í kjölfar kosninga hafi verið umtalsverðar þetta árið, og að nýleg ummæli stjórnvalda um að aðgerðir á borð við skuldaniðurfærslu muni taka nokkurn tíma hafi slegið verulega á þessar væntingar, að því er greiningin segir.