Mikil viðbrögð hafa verið á mörkuðum við fréttum að um að ríki á Vesturlöndum séu að undirbúa loftárásir á Sýrland. Verð á hlutabréfum í Bandaríkjunum, Evrópu og í Asíu hefur lækkað, verð á olíu hækkað og gengi gjaldmiðla sem hafa verið að falla síðustu vikur hefur fallið hratt í morgun.
Forystumenn í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og fleiri löndum hafa í vikunni gefið yfirlýsingar sem benda til þess að á næstu dögum verði gerðar loftárásir á Sýrland. Eins og jafnan þegar slíkar fréttir berast verða skörp viðbrögð á mörkuðum.
Fréttir um að enginn árangur hafi orðið að viðræðum demókrata og repúblikana í Bandaríkjunum um ríkisfjármál hefur síðan einnig ýtt undir lækkun hlutabréfaverðs.
Verð hlutabréfa í Bandaríkjunum og Evrópu lækkaði í gær og sama þróun hefur orðið á mörkuðum í Asíu í morgun. Verð hlutabréfa lækkaði um 1,5% í Japan og 1,3% í S-Kóreu.
Heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði í Bandaríkjunum um tæplega 3 dollara tunnan. Verðið er komið upp í 112 dollara. Verð á Norðursjávarolíu hækkaði um 2,8 dollara og er komið í 117 dollara.
Gengi gjaldmiðla Indlands og Indónesíu hélt áfram að lækka í morgun. Gjaldmiðill Tyrklands féll einnig mikið í morgun.