Ekki hissa ef hægist á hótelbyggingum

Í byggingarvinnu.
Í byggingarvinnu. Morgunblaðið/Árni Torfason

Þrátt fyrir stórt gap í fjárfestingum síðustu árin segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, að ólíklegt sé að heildarfjárfestingar muni aukast í stórri bylgju á næstunni. Hann telur líklegt að aukningin verði róleg, en hann telur ólíklegt að fjárfesting verði stór á öðrum sviðum en sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Í viðtali við mbl.is fór hann yfir rekstur bankans, framsókn á íbúðalánamarkaði og fækkun starfsmanna bankans.

Landsbankinn skilaði á fimmtudaginn hálfsárs uppgjöri, en hagnaður bankans nam 15,5 milljörðum á tímabilinu. Er það 31% hækkun frá sama tíma í fyrra. Steinþór var ánægður með niðurstöðuna og sagði að ekki væri gert ráð fyrir neinum stórum atriðum á komandi mánuðum, þannig að útkoma ársins ætti að vera í takt við þetta uppgjör.

Ekki hissa ef það hægir á í hótelbyggingum

Steinþór segir að á næstu misserum muni væntanlega koma til aukningar í fjárfestingum til sjávarútvegsins, en að öðru leyti er hann ekki mjög bjartsýnn á aðrar atvinnugreinar í þessu samhengi. „Það sem við sjáum í sjávarútveginum er að mörg af félögunum eru komin með gamlan skipaflota og það hafa verið litlar fjárfestingar. Við gerum því ráð fyrir því að á næstu árum fari að koma meira þarna inn og þá er mikilvægt að við séum í stöðu til að styðja við þær fjárfestingar,“ segir hann og bætir við „Það er rólegt hjá öðrum atvinnugreinum, en við höfum reyndar lánað mikið í hótelgeirann.“ Hann tekur fram að ólíklegt verði að aukin fjárfesting komi í stóru stökki, heldur verði væntanlega um hægan og stöðugan vöxt að ræða.

Hann segir þó mikið hafa verið í gangi þar og að hann yrði ekki hissa ef það myndi hægja á í hótelbyggingum. Aðspurður hvort búið sé að spenna bogann of hátt í fjárfestingu í ferðaþjónustunni og hvort það skapi áhættu fyrir bankann segir hann svo ekki vera, en fara þurfi varlega. „Ef eitthvað er vantar að fjárfesta meira í innviðunum, en við þurfum aðeins að sjá hvort þetta muni halda áfram áður en við sem þjóð fjárfestum allt of mikið,“ segir Steinþór um ferðaþjónustuna og varar við að farið verði of geyst.

Vanskil á mikilli niðurleið

Þegar rýnt er í uppgjörið vekur athygli að vanskil á útlánum bankans eru komin niður í 6,2%, en þau voru fyrir ári 11,7% og 24% fyrir tveimur árum. Steinþór segir að skýra megi þetta að einhverju leyti með þeim endurútreikningum og endurskipulagningu hjá fyrirtækjum sem hafi átt sér stað hjá bankanum síðustu misseri. 

Starfsfólki verður áfram fækkað

Á síðasta ári hefur starfsmönnum bankans fækkað um 104 og eru þeir í dag 1.165. Þegar horft er til tveggja ára er fækkunin tæplega 200. „Það var starfsmannafjölgun hér þegar við tókum yfir SpKef og Avant og svo hefur stór hópur verið upptekinn af hruninu, bæði með að aðstoða rannsóknaraðila og fjárhagslegri endurskipulagningu og endurreikningi viðskiptavina,“ segir Steinþór, en mörg þessara verkefna hafa verið að minnka og er starfsmannafækkunin í takt við það sem spáð hafði verið, að hans sögn.

Steinþór segir að gert sé ráð fyrir því að endurútreikningurinn muni verða langt kominn í lok september og að mestu lokið í lok þessa árs. Aðspurður hvort það muni hafa áhrif til frekari fækkunar starfsfólks segir hann að áfram verði stefnt að fækkun starfsfólks, en helst í gegnum starfsmannaveltu. „Í þessu verkefni eru beint um 20 manns. Það er þó ekki þar með sagt að þetta fólk hætti, það getur vel verið að það renni inn í önnur störf og brúi þannig eðlilega starfsmannaveltu, en við búumst við áframhaldandi fækkun starfsfólks þegar þessi stóru verkefni fara að renna út.“ Hann segir jafnframt að áfram verði leitað tækifæra til að fækka starfsfólki frekar, en ekkert liggi fyrir í þeim efnum enn.

Íbúðalán til einstaklinga næstu sóknarfæri

Næstu sóknarfæri eru að sögn Steinþórs aðallega á íbúðalánamarkaði, en hann telur að bankinn geti stórlega bætt sig á því sviði á komandi misserum. „Þegar við horfum á efnahagsreikninginn okkar er hlutfallslega lítið af íbúðalánum hjá okkur, við erum með stærstu markaðshlutdeildina hjá einstaklingum í bankaviðskiptum, en erum frekar lítil í íbúðalánum. Við sjáum það sem eðlilega þróun að íbúðalán hjá okkur verði hlutfallslega svipuð og markaðshlutdeild okkar við einstaklinga,“ segir Steinþór, en bankinn er með um þriðjungs markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði.

Í hálfsársuppgjörinu kemur fram að óverðtryggð útlán til einstaklinga hafi dregist saman um einn milljarð á tímabilinu. Steinþór segir að þetta geti verið merki um að ákveðnu jafnvægi hafi verið náð í óskum markaðarins eftir óverðtryggðum íbúðalánum. Segir hann að margir hafi viljað borga lán sín hratt og örugglega niður, meðan aðrir horfi á greiðslubyrðina. Fyrri hópurinn hafi að miklu leyti fært sig í óverðtryggðu lánin, en að ólíklegt sé að stórir hópar fari nú að færa sig yfir. 

Reglulega með skuldabréfaútboð

Þó segir hann að umræða stjórnmálamanna um að taka niður stimpilgjöldin geti haft áhrif þar á, en það geti ýtt undir meðvitund lántaka að leita að betri kjörum og færa sig á milli lánveitenda. Í kjölfarið telur hann líklegt að þróunin verði á þann veg að lántakendur færi sig í auknum mæli frá Íbúðalánasjóði til bankanna og lífeyrissjóða.

Til að minnka vaxtaáhættu vegna íbúðalánanna gaf Landsbankinn nýlega út sértryggð óverðtryggð skuldabréf. Steinþór segist reikna með því að farið verði reglulega í slíka útgáfu og sér fram á að ein slík verði á næstunni.

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans
Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK