Ef allar eigur Íbúðalánasjóðs yrðu seldar til að greiða upp skuldir sjóðsins stæðu enn um 170 milljarðar út af borðinu sem myndu falla á ríkissjóð. Þetta kemur fram í greiningu Arion banka, en þar segir jafnframt að þessi staða sé ekki ómöguleg, þótt þetta gæti þýtt aukna skuldsetningu ríkissjóðs um 10% af landsframleiðslu. Samkvæmt lánamálum ríkisins er ábyrgð ríkisins vegna ÍLS metin á 940 milljarða, en sjóðurinn metur útlán sín á 777 milljarða í lok júní.
Tímasetningin á slíkri aðgerð skiptir sköpum þar sem afar slæmt yrði ef hún myndi koma ofan í aukna skuldsetningu til að efna skuldaleiðréttingarloforð nýrrar ríkisstjórnar. Hafa þarf í huga að ekki er víst hversu sterkt fordæmið um Lánasjóð Landbúnaðarins er enda eru skuldir ÍLS um 40 sinnum meiri en skuldir Lánasjóðs landbúnaðarins voru, segir í greiningunni. Þá er ekki útilokað að beitt verði neyðarlögum ef upp komi staða þar sem lánasjóðurinn geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.
Greiningardeildin segir mikla spennu nú ríkja milli fjárfesta og ríkisstjórnarinnar, þar sem lífeyrissjóðirnir eru fremstir í flokki. Hefur fjármálaráðherra meðal annars hvatt lífeyrissjóðina til að sýna sveigjanleika ef óskað verður eftir skilmálabreytingum á núverandi íbúðabréfum. Lífeyrissjóðirnir hafa tekið það skýrt fram að ekki verði neitt gefið eftir í viðræðum um skilmálabreytingar og hafa meðal annars bent á að til þess að þeir taki á sig einhvern kostnað þurfi Alþingi að afnema eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þá hafa þeir undirstrikað skoðun sína með aðgerðum á markaði með því að bæta í eign sína í íbúðabréfum.