Engar breytingar verða gerðar á stýrivöxtum Seðlabanka Evrópu næsta mánuðinn. Þetta er niðurstaða peningastefnunefndar bankans en vextirnir eru 0,50%. Bankinn spáir því að verðbólga mælist 1,5% á evru-svæðinu í ár og1,3% árið 2014.
Ekki voru heldur gerðar breytingar á öðrum vöxtum bankans á fundi nefndarinnar í dag. Er vaxtaákvörðunin í samræmi við væntingar sérfræðinga á fjármálamarkaði.
Hagvöxtur mældist 0,3% á evru-svæðinu á öðrum ársfjórðungi. Samkvæmt spá Seðlabanka Evrópu verður samdráttur hins vegar 0,4% í ár en á næsta ári verður hagvöxtur 1% á evru-svæðinu samkvæmt spá ECB sem birt er í dag.