Fjöldi ferðamanna tvöfaldast á næstu árum

Ferðmenn skoða kort í miðborginni.
Ferðmenn skoða kort í miðborginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gera má ráð fyrir 7% árlegum vexti í ferðaþjónustu næstu 10 ár og að fjöldi ferðamanna verði 1,5 milljónir innan áratugar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting hefur unnið varðandi framtíð íslenskrar ferðaþjónustu.

Ferðaþjónustan mun skila 215 milljörðum árlega til landsframleiðslu árið 2023 og ríflega 400 milljörðum sama ár með óbeinum framlögum, samkvæmt skýrslunni.

Um 5.000 ný störf verða til og beinar og óbeinar heildarskatttekjur af ferðaþjónustu munu nema 52 milljörðum á ári eftir áratug, segir enn fremur í skýrslunni sem verður kynnt á ráðstefnu á eftir.

Einfalda þarf regluverk og stjórnkerfi ferðaþjónustunnar verulega. Mælt er með því að ferðaþjónustan sameinist um útfærslu á gjaldtöku við helstu ferðamannastaði til að standa straum af uppbyggingu þeirra, samkvæmt skýrslu Boston Consulting Group.

„Niðurstaða viðamikilla rannsókna ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group á stöðu og möguleikum íslenskrar ferðaþjónustu er að hún geti fært þjóðinni óviðjafnanleg tækifæri til hagsældar og atvinnusköpunar, en nauðsynlegt sé að einfalda stjórnkerfi ferðaþjónustu, tryggja betur upplifun ferðamanna og koma upp skilvirkri leið til gjaldtöku fyrir náttúru Íslands, segir í tilkynningu.

Mun taka fram úr sjávarútvegi

Í skýrslu Boston Consulting Group,kemur fram að ferðaþjónustan mun á þessu ára taka fram úr sjávarútvegi sem mikilvægasta útflutningsatvinnugrein þjóðarinnar. Fram kemur að á síðasta ári greiddu erlendir ferðamenn um 15 milljarða króna í beina skatta, eða sem svarar til um 120 þúsund krónu framlags til hvers heimilis á Íslandi. Með óbeinum sköttum nam fjárhæðin um 27 milljörðum króna á síðasta ári.  Vöxturinn í útflutningstekjum af ferðaþjónustu á fyrsta áratug þessarar aldar nam 136%.

Sérfræðingar Boston Consulting Group telja að fjölgun ferðamanna geti haldið áfram. Mögulegt sé að tvöfalda fjölda þeirra á næsta áratug, úr  um 700 þúsund á síðasta ári í 1,5 milljónir árið 2023 og að framlag greinarinnar til þjóðarbúsins geti meira en tvöfaldist á sama tíma.

Tryggja þarf náttúruvernd og fá ferðamenn til að eyða meiru

„Til þess að ná þeim árangri sem að er stefnt sé hins vegar nauðsynlegt að tryggja náttúruvernd, fá ferðamenn til að eyða meiru hér, draga úr árstíðasveiflu og dreifa ferðaþjónustu um landið allt. Framtíðarsýn ferðaþjónustunnar eigi að byggja á því að „hámarka framlag ferðaþjónustunnar til þjóðarbúsins með skynsamlegri og arðbærri fjölgun ferðamanna sem er innblásin af sérstæðri náttúru, einstæðri menningu og gestrisni.”

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK