Vetrarherferð markaðsátaksins Ísland allt árið hófst í dag, en inntak herferðarinnar að þessu sinni er leyndarmál á Íslandi. Meðal þess sem erlendum ferðamönnum verður boðið upp á er að kynnast lítt þekktum perlum og sniðugum hugmyndum sem eru ekki á allra vörum í gegnum herferðina Inspired by Iceland. Sem dæmi um slík leyndarmál má nefna gönguferð um Sandinn á Dalvík, æskubrunn við Surtsstaði á Fljótsdalshéraði eða saltfisksuppskriftina hennar ömmu. Herferðin var kynnt á ráðstefnu í Hörpunni í dag.
Leyndarmálunum var safnað í samvinnu við markaðsstofur landshlutanna og leitað til Íslendinga og ferðamanna um að segja frá sínum uppáhaldsleyndarmálum um allt land. Að verkefninu koma iðnaðarráðuneytið, fjármálaráðuneytið, Icelandair, Reykjavíkurborg, Isavia, Landsbankinn, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu, auk Íslandsstofu. Þá kemur fjöldi annarra fyrirtækja að þessu átaki og er fjöldi þeirra nálægt eitt hundrað.
Með verkefninu verður reynt að laða erlenda ferðamenn til landsins með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi í þágu íslenskrar ferðaþjónustu og að jafna árstíðasveiflu ferðamanna.