Vöxtur kortaveltu í júlí nam 2,8%, og því mælist samanlagður vöxtur það sem af er 3. ársfjórðungi 1,4% á milli ára. Er það svipaður vöxtur og var á 2. ársfjórðungi, en þá nam vöxturinn 1,2%. Það athyglisverða við kortatölurnar er að vöxturinn er allur í kortaveltu erlendis það sem af er ári. Þetta segir greiningardeild Íslandsbanka, en vöxturinn erlendis var 7,9% samanborið við 0,8% samdrátt í veltu hérlendis.
Kortavelta Íslendinga á erlendri grund hefur vaxið um 4,9% að raunvirði það sem af er ári, en kortavelta innanlands aðeins um 0,1% á sama tíma. Segir greiningardeildin að þessi munur stingi enn meira í augu í ljósi þess að utanferðum Íslendinga hefur fækkað um 1% það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra.
Í greiningunni segir að draga megi þá ályktun að vöxtur í einkaneyslu það sem af er ári sé nær eingöngu vegna þess að hver Íslendingur sem heldur utan eyðir mun meira í ferðalaginu þetta árið en raunin var í fyrra. Þá megi jafnvel velta því fyrir sér hvort einkaneysla utan landsteinanna gæti bent til eitthvað hægari hagvaxtar en ella, enda kemur erlend neysla að fullu til frádráttar í innflutningsliðum þjóðhagsreikninga.