Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,1% í ágúst frá fyrri mánuði samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands. Er þetta fyrsti lækkunarmánuðurinn síðan í janúar en þess má geta að húsnæðisverð lækkaði líka í ágúst í fyrra, þá um 0,3%. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka.
Talsvert flökt getur verið í verðmælingum á íbúðaverði á milli mánaða og til að fá betri sýn á hvert markaðurinn er að fara er hyggilegt að skoða þróunina yfir lengra tímabil en einn mánuð að mati greiningardeildarinnar. Bendir hún á að síðustu þrjá mánuði hafi húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu þannig hækkað um 2,3%, um 4,4% yfir síðustu sex mánuði og um 6,8% ef litið sé til síðustu tólf mánaða.
Greiningardeildin segir veltu síðust þriggja mánaða vera 23,6% meiri en á sama tímabili í fyrra, en sá vöxtur fór niður í 16,8% rétt fyrir mitt ár. Er þetta sama þróun og mátti greina í öðru er tengist útgjaldaþróun heimilanna á tímabilinu, en það hægði t.d. á vexti einkaneyslu á þessum tíma. Að baki liggur að öllum líkindum hægari vöxtur kaupmáttar ráðstöfunartekna, segir greiningin.
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu er nú 21,4% hærra en það var þegar það stóð lægst eftir hrunið, þ.e. í upphafi árs 2011. Að raunvirði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 6,8% á tímabilinu. Er þetta samskonar þróun og hefur verið á landinu öllu á tímabilinu. Er raunverð íbúða nú svipað því að og það var haustið 2004, þ.e. þegar bankarnir hófu lánveitingar til íbúðakaupa. Raunverð íbúða er hins vegar enn tæplega 29% lægra en það var þegar það stóð hvað hæst í aðdraganda hrunsins.