Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja gekk mjög vel árið 2011, en EBITDA-framlegð þeirra var 80 milljarðar og hækkaði um 26% frá fyrra ári. Þá hafa skuldir fyrirtækjanna lækkað mikið og voru árið 2011 442 milljarðar og höfðu lækkað úr 564 milljörðum árið 2008. Eignastaðan hefur einnig styrkst og var eiginfjárhlutfall sjávarútvegsfyrirtækjanna 19% í árslok 2011. Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsbanka um íslenska sjávarútveginn.
Ekki eru komnar tölur fyrir árið 2012, en í skýrslunni segir að bankinn telji að eiginfjárhlutfallið muni batna bæði árið 2012 og 2013. Á sama tíma hafa fjárfestingar í sjávarútvegi verið í lágmarki og segir í skýrslunni að helsta ástæða þess sé óvissa um fiskveiðistjórnunarkerfið, þ.e. skerðingu aflaheimilda og aukin veiðigjöld. Segir að í því góða árferði sem hafi ríkt síðustu ár hafi skapast svigrúm til aukinna fjárfestinga, en slíkt hafi ekki verið raunin.
Í stað þess að fjárfesta hafa sjávarútvegsfyrirtækin lagt áherslu á að greiða niður skuldir og hafa þau greitt um 82 milljarða í umframgreiðslur á lán á síðustu fjórum árum.