Ekki spennandi að fjárfesta í bönkum

Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands, sagði að stilla þyrfti verðhugmyndum …
Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands, sagði að stilla þyrfti verðhugmyndum um bankana í hóf.

Í morgun hélt Landsbankinn fund þar sem spurt var hvort fjármálafyrirtæki væru spennandi fjárfestingakostur. Fundastjóri sagði í upphafi að markmiðið væri að hrista aðeins upp í umræðunni og Brynjólfur Bjarnason, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, stóð undir því í upphafi sinnar ræðu. Sagði hann þá að ef átt væri við bankana, þá væri stutta svarið nei.

Telur ólíklegt að erlendir fjárfestar setji fé í bankana

Brynjólfur útlistaði í framhaldinu þá ókosti sem hann sæi við fjárfestingu í bönkum á þessum tímapunkti og sagði hann að fjárfestar þyrftu að vera passasamir og gæta varúðar í því að setja fjármuni að nýju í bankana. Meðal þess sem Brynjólfur sagði búa til óvissu væru gjaldeyrishöftin, sem kæmu í veg fyrir að erlendir fjárfestar legðu á sig vinnu við að kynna sér hagkerfið og reglur hér á landi og væru ekki til í að fara út í þá áhættu að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum. Þá sagðist hann ekki sjá að höftin yrðu afnumin í náinni framtíð.

Ekki nógu langt gengið í endurskipulagningu fyrirtækja

Þá sagði Brynjólfur að hann væri með miklar efasemdir um að nógu langt hafi verið gengið í endurskipulagningu fyrirtækja og á komandi misserum muni aftur þurfa að ráðast í endurskipulagningu fyrirtækja með of lítið eigið fé. Sagði hann að við núverandi stöðu væru mörg fyrirtæki ekki lífvænleg og að lítið eigið fé hafi dregið mikið úr fjárfestingum, eða jafnvel komið í veg fyrir þær. Þetta gerði fjárfestingu í bönkum enn áhættusamari en ella.

Frá hruni hefur verið farið í þó nokkra hagræðingu í bankakerfinu, útibúum lokað og starfsfólki fækkað. Brynjólfur segir að þrátt fyrir það sýni samanburðartölur við norræna banka að hér sé mun meira óhagræði. Áframhaldandi hagræðing sé þó sýnd veiði en ekki gefin og ólíklegt sé að aukin samþjöppun verði leyfð. Þá sé stækkun markaðar útilokuð í bráð vegna fjármagnshafta.

Rök fyrir lágu verði bankanna

Hann kom einnig inn á útgöngu núverandi eigenda bankanna, sem hann sagði að vildu koma sínum fjármunum úr landi, það ætti öllum að vera ljóst. Sagði hann þetta þá stöðu leiða til þess að núverandi eigendur, sem eru að miklum hluta til erlendir vogunarsjóðir og bankar, séu tilbúnir að taka við mögulegum afföllum.

Þetta sagði hann allt vera rök fyrir því að stilla ætti kröfum um verð bréfa í bönkunum í hóf og að það ætti að vera nokkuð lágt. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hafði fyrr um morguninn tekið fram í ræðu sinni að hann vildi selja hlut ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka og jafnvel einhvern hluta bréfanna í Landsbankanum, en að rétt verð þyrfti að koma fyrir bréfin.

„Ég þakka gott hljóð við að tala niður verð bankanna“

Fyrirlesturinn endaði hann á orðunum „ég þakka gott hljóð við að tala niður verð bankanna,“ en miðað við umfang og stefnu sjóðsins um líftíma og hlutverk er líklegt að hann muni skoða vandlega að koma að kaupum í bönkunum fari þeir á markað.

Fjölmennt var á ráðstefnunni í morgun, en þar var fjallað …
Fjölmennt var á ráðstefnunni í morgun, en þar var fjallað um það hvort hvort íslensk fjármálafyrirtæki séu spennandi fjárfestingarkostur. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK