Eigi að takast að laða erlenda fjárfesta til Íslands þá skiptir sköpum að tryggja stöðugleika á Íslandi – bæði pólitískan og efnahagslegan – þannig að íslensk löggjöf og skattaumhverfi sé fyrirsjáanlegt. Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, í opnunarávarpi sem hann flutti á fjárfestingaráðstefnu í London í morgun, en hann lauk máli sínu með þeim skilaboðum til erlendra fjárfesta að hann vonaðist til að „sjá ykkur, og peningana ykkar á Íslandi.“
Ráðstefnan er haldin af Mergermarket, en samstarfsaðilar eru Arion banki, Fjárfestingastofa Íslands, Carbon Recycling og lögfræðistofan Logos. Um það bil 150 manns sækja ráðstefnuna.
Sigmundur sagðist telja að Ísland stæði nú á ákveðnum tímamótum. Kominn væri til valda ríkisstjórn, með ríflegan meirihluta á Alþingi, sem hefði skýra sýn um hvernig mætti auka fjárfestingu á Íslandi. Forsætisráðherra benti á að sögulega séð hefðu samstarfsstjórnir Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins staðið sig vel í stjórnun efnahagsmála; með góðum hagvexti, lækkun ríkisskulda og stöðugleika í ríkisfjármálum. Allt væru þetta atriði sem skiptu áhugasama erlenda fjárfesta miklu máli.
Að sögn Sigmundar verður íslenska krónan gjaldmiðill landsins til fyrirsjáanlegrar framtíðar. Stjórnvöld hafi trú á íslensku krónunni og muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að skapa þá efnahagslegu umgjörð sem treystir stoðir gjaldmiðilsins. Forsætisráðherra er sannfærður um að krónan muni endurheimta styrk sinn þegar ýmsar aðgerðir stjórnvalda sem séu í undirbúningi verði að veruleika.
Hluti af þeim aðgerðum eru að losa um fjármagnshöftin. Uppgjör föllnu bankanna er nauðsynleg forsenda áður en ráðist er í afnám hafta og sagði forsætisráðherra að það „svigrúm“ sem myndi skapast í þeim aðgerðum, með samningum við erlenda kröfuhafa, yrði nýtt að hluta til að koma til móts við skuldug íslensk heimili. Sagði forsætisráðherra að slík niðurstaða væri báðum aðilum í hag þar sem í kjölfarið yrði hægt að losa um fjármagnshöft sem myndi hagnast bæði lántakendum og kröfuhöfum.