Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir í samtali við Bloomberg-fréttastofuna að ríkisstjórnin sé ekki fara að semja við kröfuhafa íslensku bankanna heldur sé stefnan að bíða enn um sinn.
Hann segir að kröfuhafar föllnu bankanna séu helsta hindrun í vegi þess að hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftunum hér á landi.
Sigmundur segir í viðtalinu, sem var tekið í Lundúnum í dag, að miðað við núverandi stöðu verði hægt að aflétta höftunum í fyrirsjáanlegri framtíð. „Það byggir að sjálfsögðu á því að þeir sem eiga fjármuni sem eru læstir inni gjaldeyrishöftum séu reiðubúnir að aðstoða okkur,“ sagði forsætisráðherrann.
Eignir erlendra kröfuhafa nema um 8 milljörðum dala hér á landi, en féð hefur verið læst inni í gjaldeyrishöftum undanfarin ár.
Sigmundur segist vilja sjá kröfuhafa sem eiga 3,8 milljarða í krónueignum hér á landi afskrifa hluta skuldarinnar til að létta á stöðu gjaldmiðilsins þegar aðgerðir til að aflétta gjaldeyrishöftunum hefjast. Sigmundur vildi ekki nefna neina tölu í þeim efnum.