Skilanefnd Kaupþings hefur hafið vinnu við það að selja Arion-banka. Unnið er að ráðningu utanaðkomandi ráðgjafa og áhugasamir fjárfestar hafa þegar haft samband og sýnt Arion áhuga, að því er fram kemur á vef Bloomberg.
Haft er eftir Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, lögmanni sem á sæti í skilanefndinni, að ákvörðunin hafi verið tekin nýverið og undirbúningsvinnan sé hafin.
Hann bætir því við að áhugasamir fjárfestar hafi þegar sett sig í samband við skilanefndina. Það sé því ljóst að menn sýni eigninni áhuga.
Jóhannes tekur hins vegar fram í viðtalinu, sem var tekið í Lundúnum að skilanefnd Kaupþings hafi ekki enn hafið formlegt söluferli.