Íslendingar eru mestu raforkuframleiðendur heims ef miðað er við höfðatölu og hafa álíka hagsmuni af hækkun raforkuverðs og hækkun fiskverðs. Heimilin nýta aðeins 5% raforkunnar, sem er unnin á Íslandi, þar sem 90% landsmanna hafa aðgang að hitaveitu. Með tilkomu sæstrengs mun raforkuverð á Íslandi til heimila áfram vera lágt og jafnvel óbreytt frá því dag kjósi stjórnvöld það. Þetta kemur fram í skýrslu sem fjármálafyrirtækið GAMMA hefur unnið fyrir Landsvirkjun til að greina áhrif sæstrengs á hag íslenskra heimila.
Segir þar að tiltölulega auðvelt sé að endurdreifa hagnaði orkufyrirtækja til heimilanna; til dæmis mætti tryggja þeim óbreytt raforkuverð, lækka skatta eða greiða þeim út arð í einhverju formi. Einnig væri hægt að niðurgreiða sérstaklega raforku til þeirra 9 þúsund heimila er nýta rafkyndingu með svipuðum hætti og gert er nú.
Skýrsluhöfundar segja að tvöföldun tekna Landsvirkjunar gæti skilað tekjuauka til íslensks samfélags upp á um 40 milljarða á ári, sem jafngildir um það bil árlegu heildarframlagi ríkisins til reksturs á Landspítalanum.
Helstu markmið þess að leggja rafmagnssæstreng eru að auka öryggi og skilvirkni í orkuvinnslu þar sem minna varaafl þarf til þess að standa við skuldbindingar um orkuafhendingu. Þannig myndi minna vatn renna ónotað til sjávar á yfirfalli virkjana og lægri meðalkostnaður skapa hreinan ábata fyrir samfélagið í heild sinni, jafnvel þótt raforkuverði sé haldið föstu. Um það verður ekki deilt segir í skýrslunni.
Aukinheldur er íslensk raforka miðlunarhæf til þess að selja inn á notkunartoppa hinum megin við hafið á háu verði. Þá gætu landsmenn notið grænna styrkja eða yfirverðs fyrir sölu á endurnýjanlegri orku. Allt þetta gefur Íslendingum færi á því að auka afrakstur sinn af orkuauðlindum landsins án þess endilega að orkuverð innanlands þurfi að hækka að marki, segir í skýrslunni.
Þá er bent á að töluverð áhætta fylgi því að binda 75% raforkusölunnar við eina atvinnugrein. Sala á raforku í gegnum sæstreng myndi dreifa áhættu fyrir íslensk orkufyrirtæki þar sem selt er til nýrra aðila og undir öðrum söluskilmálum. Þannig mun tilkoma sæstrengs bæði skapa ábata og minnka áhættu orkuframleiðenda hérlendis.