Kröfuhafar íslensku bankanna hafa orðið fyrir vonbrigðum með hvað íslensk stjórnvöld eru ófús að ræða við þá um uppgjör skulda. Þetta segir í frétt sem birtist í Financial Times í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í samtali við Bloomberg-fréttastofuna í síðustu viku, að ríkisstjórnin væri ekki fara að semja við kröfuhafa íslensku bankanna heldur væri stefnan að bíða enn um sinn.
Í frétt FT segir að slitastjórnir Kaupþings, Glitnis og Landsbankans séu búnar að endurheimta eignir að verðmæti um 2.800 milljarðar króna. Kröfuhafarnir vilji losa þessa peninga, en það er ekki heimilt meðan gjaldeyrishöft eru í landinu.
Í fréttinni segir að kröfuhafar hafi ekkert heyrt frá nýrri ríkisstjórn, sem tók við völdum á Íslandi í vor. Haft er eftir einum þeirra sem vinna með kröfuhöfum að kröfuhafar vinni skipulega og séu tilbúnir til viðræðna við stjórnvöld á grundvelli tillagna sem voru kynntar á síðasta ári.
„Kröfuhafar hafa áhyggjur af því hversu ófús stjórnvöld er að skuldbinda sig,“ segir þessi ónafngreindi heimildarmaður í samtali við blaðið.
FT hefur eftir Sigmundur Davíð að stjórnvöld ætli ekki að hafa afskipti af formlegum viðræðum kröfuhafa við slitastjórnirnar. Stjórnvöld geti ekki tekið völdin af sjálfstæðum fyrirtækjum og farið að semja fyrir þeirra hönd.
Í fréttinni segir að ekkert sé að gerast í viðræðum kröfuhafa við Seðlabanka Íslands vegna þess að stjórnendur bankans séu að bíða eftir stefnumörkun frá stjórnvöldum. Samkvæmt lögum sem samþykkt voru í mars þarf fjármálaráðherra Íslands að samþykkja allar ákvarðanir sem hinir föllnu bankar taka.